138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[10:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um að vera með ýmiss konar ívilnanir fyrir þá sem vilja hætta sínu fé í nýsköpunarfyrirtækjum. Ríkisstjórnin reynir sem sagt með magnvana hætti að lokka til sín áhættufé sem hún aftur á móti rassskellir á alla enda og kanta í þeim frumvörpum sem við erum búin að samþykkja áður. Henni er illa við áhættufé en stundum má þó nota það. Mikið vantar upp á að skapað hafi verið traust á fjárfestingu á Íslandi. Traustið fór algerlega forgörðum í hruninu vegna þess að það var áhættuféð sem tapaði mestu en menn hafa ekkert gert til að byggja upp það traust aftur, ekki neitt. Síðan ætla menn með veikum hætti og vanmáttugum að reyna að galdra þetta áhættufé til að fjárfesta í nýsköpun. Ég trúi því að þetta verði tómt mengi, (Forseti hringir.) frú forseti, því miður. Ég segi samt já. [Hlátrasköll í þingsal.]