138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[10:15]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mál sem við framsóknarmenn styðjum. Sá sem hér stendur er 1. flutningsmaður að þingsályktunartillögu um að veita nýsköpunarfyrirtækjum skattaívilnanir og ég tek það fram að Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur lagt fram mál á Alþingi þess efnis. [Kliður í þingsal.] Þetta hefur reyndar verið á stefnuskrá annarra flokka en batnandi mönnum er best að lifa og þess vegna tökum við framsóknarmenn heils hugar undir þær breytingar sem hér er verið að gera.