138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[10:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér kemur til umfjöllunar við 3. umr. það mál sem við greiddum atkvæði um á fyrri fundi sem lýtur að nýju tekjuskattskerfi á Íslandi, þriggja þrepa kerfi eins og þekkist í nágrannalöndum okkar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið mikinn um að hér sé verið að flækja skattkerfið óhóflega. Það er ástæða til að vekja athygli á ferli þess flokks í þeim efnum.

Sjálfstæðisflokkurinn rak hér margþrepatekjuskattskerfi um langt árabil. Þar voru þrepin hins vegar öfug við það sem menn þekkja víðast hvar í heiminum. Lægstu þrepin í hinum þrepaskipta tekjuskatti Sjálfstæðisflokksins voru nefnilega fyrir fólkið með hæstu tekjurnar. Hér var einn tekjuskattsflokkur fyrir almenning. Ofan á það var sérstakur tekjuskattur sem var annað þrep. Og svo var sérstakt 10%-þrep, lægsta skattþrepið í margþrepatekjuskatti Sjálfstæðisflokksins — fyrir fjármagnseigendur, fyrir þá sem lifa af vöxtunum, fyrir þá sem hafa bara vaxtatekjur, fyrir þá sem eru í sterkastri aðstöðu til að leggja til í samfélaginu. Ekki nóg með það, Sjálfstæðisflokkurinn hagaði sínu flókna skattkerfi með þeim hætti að lágar skattprósentur í þessum fjármagnstekjuskatti og á atvinnufyrirtækin urðu til þess að þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga fluttu launatekjur sínar með fullkomlega lögmætum hætti yfir í einkahlutafélög og hófu að telja fram sem rekstraraðilar með ómældu flækjustigi í skattkerfinu og erfiðleikum fyrir skattyfirvöld í allri skattframkvæmd.

Þannig hefur það aldrei vafist fyrir Sjálfstæðisflokknum að flækja skattkerfið þegar það þjónar pólitískum hagsmunum hans.

Að reka þriggja þrepa skattkerfi er sannarlega ekki flókið. Það gera einfaldlega flestar þjóðir, m.a. nágrannaþjóðir okkar sem eiga því láni að fagna að hafa náð meiri jöfnuði í sinni tekjudreifingu en við og hafa um leið búið að meiri efnahagslegri farsæld en við. Það er afstaða ríkisstjórnarinnar að af nágrannaþjóðum okkar megum við mikið læra í þessum efnum. Við megum af þeim læra að auka jöfnuð í okkar samfélagi og að beita þeim aðferðum sem þar er beitt til þess. Upphrópanir Sjálfstæðisflokksins um flækjustig eru auðvitað bara illa dulbúin andstaða þeirra við auknar álögur á þá sem breiðust hafa bökin því að það sem m.a. er verið að gera hér — og Sjálfstæðisflokkurinn hefur kannski ekki talað mest um — er að verið er að færa fjármagnstekjuskattinn til nokkurs samræmis við það sem launafólk í landinu greiðir af sínum launum. Það er verið að færa hann úr 10% í 18% og í þeirri verðbólgu sem við erum í er það sannarlega orðið nokkuð svipuð skattheimta og er á launatekjum í landinu. Auðvitað eru það þessi atriði ásamt með auðlegðarskattinum sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa jafnvel gengið svo langt að líkja við gamla ekknaskattinn sem fólk greiddi bara af venjulegu íbúðarhúsnæði. Andstaða flokksins við það að við þær einstöku aðstæður í efnahagsmálum sem við búum leggi það fólk sem á 100 millj. kr. í hreinni eign eða meira lítils háttar til þess að létta byrðarnar í samfélaginu er einfaldlega óskiljanleg.

Virðulegur forseti. Við höfum rætt skattamál nú í nokkurn þaula undanfarna daga, þetta mál og önnur, aðdraganda þeirra og ástæður. Við höfum líka gert grein fyrir afstöðu okkar hér í atkvæðaskýringum. Vegna þess að samkomulag hefur orðið um fyrirkomulag umræðunnar læt ég þessa almennu umfjöllun um málið nægja að öðru leyti en því að hér hefur misskilnings gætt hvað varðar tengingar á launavísitölu sem voru settar inn við 2. umr. Þess misskilnings hefur gætt að vegna þess að við ákváðum að tengja þrepin við launavísitölu komi það sér bara vel fyrir meðaltekjufólk og hátekjufólk. Það er auðvitað fjarri öllum sanni. Það þýðir að mörkin í lægsta skattþrepinu muni hækka eftir því sem laun í landinu hækka og með því er leitast við að tryggja að þeir sem á lægstu laununum eru verði áfram í lægsta þrepinu, jafnvel þó að launaþróun verði hér jákvæð en flytjist ekki eftir nokkur ár upp í milliþrepið með hluta af tekjum sínum. Það kemur þess vegna öllum tekjuhópunum til góða að setja um þetta reglur og skýr viðmið þegar í upphafi. Hitt er síðan rétt að við þurfum að taka afstöðu til persónuafsláttarins og hvernig hann eigi að þróast samhliða þrepaskipta skattkerfinu og til vaxtabótakerfisins og barnabótakerfisins og við höfum ákveðið að gefa okkur tíma til þess næsta árið vegna þess að það er sannarlega býsna flókið verkefni, að fara í gegnum samspil tekjuskattskerfisins og bótakerfisins.

Þar kemur auðvitað margt til álita fyrir utan að tengja persónuafsláttinn við ákveðin viðmið vegna þess að í hinum nýja þrepaskipta tekjuskatti koma líka aðrar leiðir til greina sem eru samspil á persónuafslætti og skattprósentunni í hverju þrepi. Það má líka ná árangri til þess að tryggja að skattbyrðin aukist ekki með því að lækka prósenturnar í þrepunum og auðvitað verðum við líka að gefa okkur góðan tíma til að meta það í hvaða færum við erum og hversu mikið hægt er að halda aftur af skattbyrðinni á þeim árum sem nú fara í hönd. Þar er uppi mikil óvissa og þar sem ákvarðanir hafa verið teknar hér um fyrirkomulagið á næsta ári teljum við það fullnægjandi afgreiðslu málsins nú og rétt að gefa sér þennan tíma til að fara yfir aðra þætti málsins og komast að niðurstöðu í þeim, auðvitað í samráði við aðila vinnumarkaðarins og þó einkum auðvitað verkalýðshreyfinguna.