138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[10:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta var fróðleg ræða hjá hv. þm. Helga Hjörvar, ræða sem gekk út á að blekkja landslýð og reyna að koma inn þeirri hugmynd að hér væri verið að taka upp þriggja þrepa kerfi eins og þekkist á Norðurlöndunum þannig að ég vitni orðrétt í hv. þingmann.

Það kerfi sem verið er að innleiða með 14. gr. er vissulega með þremur þrepum en þetta á ekkert skylt við skattkerfi á Norðurlöndunum. Það er hin stóra blekking. Skattkerfið á Norðurlöndunum sem er notað til mikillar tekjujöfnunar þar byggir vissulega á þrepum þótt Danir séu reyndar að losna við eitt þrepið hjá sér og einfalda það í átt til kerfisins sem var á Íslandi, eða réttara sagt sem verður fram að áramótum, og mikil umræða fari fram í Svíþjóð um að fækka þrepunum og líkja meira eftir kerfinu eins og það er á Íslandi. Til að setja upp kerfi sem hv. þm. Helgi Hjörvar lýsti áðan þyrfti að lækka persónufrádrátt stórkostlega þannig að frítekjumarkið yrði kannski yfir 40.000 eða eitthvað svoleiðis, það þyrfti að setja skatta á þá lægst launuðu, lægri skatta, það er rétt að það komi fram, þannig að fleiri verði skattgreiðendur.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir lýsti akkúrat þessu kerfi, hvernig ætti að fara að því að breyta í norrænt velferðarskattkerfi á næsta ári, þ.e. með því að lækka persónufrádráttinn stórkostlega og láta þá tekjulægstu fara að borga skatta. Það er alrangt sem hv. þm. Helgi Hjörvar heldur fram, að hér sé verið að innleiða eitthvert skattkerfi eins og þekkist á Norðurlöndunum. Það er einföld blekking.

Þá fjallaði hv. þingmaður í löngu máli um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið með margþrepakerfi, talaði um að sumir hefðu ekki borgað neina skatta, aðrir borguðu skatta, síðan borguðu einhverjir bara fjármagnstekjuskatta og það væri í einkahlutafélögum og annað slíkt. Þessi málflutningur er ekki boðlegur á Alþingi og það er ekki boðlegt að bjóða upp á svona. Í öllum skattkerfum eru sérreglur fyrir atvinnurekstur og sérreglur fyrir einkaaðila. Ef það er allt saman talið saman geta einstaklingar lent í mörgum skattflokkum. Að tala um það sem þrepaskatt og flækjur er blekking og ekkert annað, það er stór blekking.

Það er kannski eitt sem hefur ekki verið fjallað nægilega vel um hér en er fjallað ágætlega um í nefndaráliti okkar í 1. minni hluta, gríðarlega mikil breyting verður á jaðarsköttum á Íslandi. Allir munu borga hærri jaðarskatta eftir kerfisbreytinguna og þessir jaðarskattar þýða að hvatinn til að hækka í tekjum minnkar vegna þess að stöðugt er meira tekið af launþeganum. Það er akkúrat gallinn á þrepaskattkerfinu að það letur til atvinnuþátttöku. Nú gætu einhverjir sagt að þetta væru ýkjur en það er samt staðreynd að í hæstu tekjuflokkunum eftir að þessi breyting hefur farið fram enda 66% af launakostnaði fyrirtækis við launþega ekki í vasa launþegans. Svo skulu menn tala um Svía að þeir séu með hæstu skatta í heimi. Ætli það verði ekki eins og í virðisaukaskattinum, að við náum þeim?