138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[10:38]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Við erum að ræða um tekjuöflun ríkisins og eins og fulltrúi Framsóknarflokksins í efnahags- og skattanefnd fór ágætlega í gegnum við 2. umr. leggjast framsóknarmenn ekki gegn því að hækka þurfi skatta á almenning. Þegar einn þriðji af tekjustofnum ríkisins hefur horfið og gífurlega miklar skuldir lagst á ríkissjóð liggur fyrir að einhvern veginn þarf að taka á þeim vanda. Við mótmælum hins vegar vinnubrögðunum. Við erum mjög ósátt við það hvernig staðið hefur verið að þessum breytingum á tekjuskattskerfinu og ég held að ef menn hefðu kannski gefið sér aðeins meiri tíma, eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á í atkvæðaskýringum fyrr í dag, nýtt núverandi kerfi, hækkað persónuafslátt einstaklinga umtalsvert og staðgreiðsluna sjálfa hefði verið hægt að afla sömu tekna og hérna er lagt til varðandi tekjuskatt einstaklinga þannig að það liggi algerlega fyrir og fólk geri sér grein fyrir því að þær breytingar sem hér eru lagðar til eru ekki fyrst og fremst til tekjuöflunar heldur eru þetta hugmyndafræðilegar breytingar. Það er verið að flækja hlutina algjörlega að óþörfu og ríkisstjórnin hefur réttlætt það með því að verið sé að búa til meira jafnræði. Það er búið að hrekja það líka algjörlega. Núverandi kerfi hefði getað staðið undir því að afla ríkinu þessara tekna. Það hefði gert það að verkum að það væri ekki nauðsynlegt fyrir fyrirtæki núna um áramótin að uppfæra hvert einasta launakerfi í landinu sem þýðir umtalsverðan kostnað hjá fyrirtækjum sem mörg berjast þegar í bökkum. Í tilefni þessa langar mig til að minna á hvernig staðið var að þegar síðast var farið í jafnumfangsmiklar breytingar á tekjuskattskerfinu. Þá var mikil vinna lögð í að undirbúa þær breytingar.

Lengi hafði verið rætt um að taka upp staðgreiðslu skatta og það má fullyrða að það hafi verið þverpólitískur vilji í samfélaginu til að breyta og einfalda skattkerfið. Íslenskt atvinnulíf er þannig samsett að töluvert er um að fólk sé annaðhvort í fleiri en einu starfi eða með mjög sveiflukenndar tekjur. Það er töluvert ólíkt frá því sem t.d. þekkist á Norðurlöndunum en hugmyndin að þessum breytingum hjá ríkisstjórninni kemur einmitt annars staðar að á Norðurlöndunum og það er algerlega hunsað að það skuli vera töluverður munur á atvinnulífinu og hvernig tekjur fólks eru hér og þar. Þegar við stóðum síðast í svona miklum skattbreytingum voru flestir sammála um að æskilegt væri að útrýma eftirásköttum. Það hlýtur að vera hagstætt fyrir ríkisvaldið að geta nokkurn veginn áætlað greiðsluflæðið inn í ríkissjóð og að þeir geri sér ekki bara grein fyrir áætluðum tekjum eða rekstraráætlun heldur hversu mikla peninga ríkissjóður hefur í raun og veru á milli handanna. Hið sama hlýtur náttúrlega að gilda líka um heimilin, að fólk geri sér grein fyrir því frá mánuði til mánaðar hversu mikla skatta það borgar í raun og veru og ætlunin var einmitt að losna við eftiráskatta, reyna að útrýma þeim eins og hægt væri. Árið 1986 var settur mikill kraftur í að skoða þessi mál með nefndaskipan og í beinu framhaldi tóku ASÍ og VSÍ, sem er forveri Samtaka atvinnulífsins, frumkvæði í málinu og nánast sömdu um það. Núna sjáum við hins vegar að ASÍ ályktar hreinlega gegn ákveðnum hluta þessa frumvarps hvað varðar afnám af verðtryggingunni og persónuafslættinum. Samstarfið við aðila vinnumarkaðarins virðist vera nánast ekki neitt. Síðan var komið á samkomulagi um að taka upp staðgreiðslu opinberra gjalda í ársbyrjun 1988. Það lá fyrir samkomulag.

Ég man ekki eftir því að í kosningabaráttunni núna í vor, og það er ekkert sérlega langt síðan, hafi almennt verið rætt um að fara í svona umfangsmiklar breytingar á staðgreiðslukerfinu, að fara í þetta miklar breytingar á tekjuskattskerfinu. Ég held að það sé algjörlega ljóst að þeir flokkar sem eru að fara núna í þessar breytingar hafi ekki fengið umboð frá almenningi til þess. Mig langar annars til að þeir bendi mér á það því að það fór þá algjörlega fram hjá mér. Ég hef spurt fleiri hvort einhver umræða hafi farið fram á opinberum vettvangi um að til stæði að fara í eina stærstu og umfangsmestu byltingu á tekjuskattskerfinu frá 1988.

Þegar staðgreiðsla skatta átti 10 ára afmæli birtist grein í Tíund. Með leyfi forseta segir í greininni:

„Náið samráð var haft við fulltrúa atvinnulífsins í landinu um hvernig tilhögun staðgreiðslu skyldi vera. Allir voru sammála um að nýja skattkerfið okkar ætti að vera einfalt, auðskiljanlegt og aðgengilegt. Ákveðið var að nota eina skattprósentu með háum persónuafslætti sem ætlað var að koma í stað fjölmargra sérgreindra frádráttarliða.“

Svo mörg voru þau orð. Nýja skattkerfið sem fólk var sammála um að koma á átti að vera einfalt, auðskiljanlegt og aðgengilegt. Þetta sem verið er að gera er flókið, það verður erfitt fyrir fólk að skilja þetta og það verður óaðgengilegt þannig að þessar breytingar uppfylla ekki eina einustu af þeim forsendum sem var lagt upp með 1988 þegar síðast var farið í svona miklar breytingar. Meira að segja innan stjórnarflokkanna viðurkenna menn að þurft hefði að gefa sér meiri tíma í þetta, að kerfið sem verið er að koma á núna sé hálfgerður bastarður eins og var talað um í atkvæðaskýringum eftir 2. umr. Ef við ætluðum okkur í alvöru að koma upp sams konar tekjuskattskerfi og er á Norðurlöndunum hefðum við þurft að vinna þetta mun betur, við hefðum þurft að skoða þetta heildstætt út frá vaxtabótakerfinu og barnabótunum þannig að við hefðum tekið inn heildarkerfi í staðinn fyrir ákveðinn hluta af kerfinu.

Með leyfi forseta langar mig til að vitna í grein eftir Guðmund Jóelsson, löggiltan endurskoðanda, sem skrifaði í Morgunblaðið 20. nóvember sl. Hann spyr, með leyfi forseta:

„Skyldi það vera skynsamlegt nú, rúmum tuttugu árum síðar, að hverfa aftur frá einfaldleikanum yfir í flækjustig, sem hlýtur að vera miklu dýrara í framkvæmd og draga úr gegnsæi og möguleikum til eftirlits? Svar mitt er afdráttarlaust nei.“

Ég get ekki annað en tekið undir þetta, svarið hlýtur að vera nei.

Í þessari grein lýsir hann líka miklum áhyggjum af þessum hugmyndum, að það sé í rauninni verið að hverfa frá samsköttun hjóna. Þetta „getur leitt til mjög mismunandi skattbyrði fjölskyldna eftir því hvernig hjón kjósa að standa að öflun tekna í heild“ eða hvernig fólk hefur möguleika á því að afla sér tekna í heild. Fyrir allmörgum árum tókst að ná því fram, m.a. fyrir baráttu jafnréttissinna — og ég minni á, virðulegi forseti, að þessi ríkisstjórn hefur talað um sig sem jafnréttissinnuðustu ríkisstjórn sem hefur verið hér — að persónuafsláttur beggja hjóna skyldi nýtast að fullu á móti heildartekjum þótt annar aðilinn kysi að vera heimavinnandi. Hvar eru þær gagnrýnisraddir sem höfðu þá svo hátt? Hvernig stendur á að þær vilja hverfa til fortíðar í þessum efnum? „Hvað er orðið um hugtakið „fjölskyldustefna“ í þessum málum?“ spyr þessi löggilti endurskoðandi, Guðmundur Jóelsson, í grein sinni. Það skyldi þó ekki hafa horfið á sömu braut og þegar þeir stóðu að breytingunum á fæðingarorlofssjóðnum sem hefði raunar verið eitt stærsta skrefið í átt að jafnrétti í samfélaginu.

Það er að koma betur og betur í ljós að það er ekkert að marka þessa norrænu velferðarstjórn, eins og hún hefur viljað titla sig. Það er ekki um neina norræna velferð að ræða. Menn geta ekki einu sinni tekið almennilega upp hugmyndir frá Norðurlöndunum, heldur skila þeim hálfköruðum inn í þingið. Ég er nokkuð viss um að við munum gera fátt annað á næsta ári en að leiðrétta mistök sem væntanlega hafa verið gerð í þessu máli. Ég held að það muni koma stórum hluta almennings mjög á óvart þegar upplýst verður um þessar breytingar eftir áramótin. Það hefur ekki verið neinn tími til að kynna fólki breytingarnar og það er svo einkennilegt þegar það er orðið þannig að það þarf að breyta breytinganna vegna en ekki til að ná tilganginum með kerfinu sem er sá að skila ríkissjóði tekjum. Ríkissjóður þarf nauðsynlega á tekjum að halda og innan núverandi kerfis væri hægt að ná þessum tekjum. Það væri líka hægt að tryggja það með umtalsverðri hækkun persónuafsláttar, jafnvel er talað um hátt í 50.000 kr. Með því að hækka tekjuskattinn upp í u.þ.b. 42% væri hægt að ná þessum jafnræðissjónarmiðum sem stjórnarliðar hafa lagt svo mikla áherslu á. Ég get alveg tekið undir að það er mikilvægt að hafa í huga.

Það má benda á að það er líka mjög einkennilegt að einn af helstu ráðgjöfum hæstv. fjármálaráðherra, aðstoðarmaður hans og fyrrum ráðuneytisstjóri, Indriði Þorláksson, skilst mér að hafi verið mjög virkur í þeim breytingum sem voru gerðar á sínum tíma. Hann hefur þá væntanlega tekið undir þau markmið að skattkerfi okkar ætti að vera einfalt, auðskiljanlegt og aðgengilegt. Eitthvað hefur greinilega breyst í millitíðinni. Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Þetta verða áföll fyrir fyrirtækin og það verður áfall eftir áramótin fyrir einstaklingana að þurfa að standa í því að reyna að skilja þetta kerfi. Það verður enn á ný erfitt og flókið fyrir fólk að skilja þegar kemur að því að skila inn skattframtalinu og það verður flókið og erfitt fyrir fólk að skilja nákvæmlega hinn endanlega tekjuskatt sem það þarf að greiða til ríkisins. Það er talað um að þessi eftirágreiðsla geti leitt til þess að minni fjármunir renni í ríkissjóð og það gæti verið um hundruð milljóna króna að ræða, jafnvel milljarða. Eins og virðulegur forseti getur heyrt á orðum mínum sé ég fátt gott við þetta mál.

Að lokum vil ég nefna sérstaklega vinnubrögðin í þinginu. Þau hafa verið algjörlega til skammar. Menn hafa haft lítið svigrúm til að kynna sér málið sjálft og þær breytingartillögur sem voru gerðar fyrir 2. umr. Ég vil fá að vitna í orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar úr nefndaráliti hans sem hann ritar „seint á föstudagskvöldi en á laugardagsmorgni hyggst meiri hlutinn kynna þær breytingar sem lagðar eru til á frumvarpinu“. Hann neyddist til að skrifa nefndarálit sitt án þess (Forseti hringir.) að vera búinn að fá breytingartillögurnar í hendurnar og með leyfi forseta segir hv. þingmaður:

„Þetta verklag er óásættanlegt og vitlaust og má segja að kannski beri skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar þess merki.“

Ég vil bara segja að það er ekki spurning um kannski, heldur bera þau þess merki.