138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[11:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Við sjálfstæðismenn höfum ítrekað í þeirri umræðu sem nú stendur yfir, um tekjuskatt og hækkun á tekjuskatti og ýmsa aðra nýja skatta sem lagðir verða á þjóðina, varað við þeirri efnahagsstefnu sem birtist í skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar. Við höfum varað við því vegna þess að reynslan sýnir að tilraunir til að reyna að skattleggja sig út úr þeirri stöðu sem við Íslendingar erum í eru allt að því dæmdar til að mistakast. Vissulega er hægt að finna dæmi þar sem orðið hafa áföll og ríkissjóðir viðkomandi landa hafa lent í vandræðum að menn hafi tímabundið jafnvel hækkað skatta til að bjarga ríkissjóðum sínum. En það er engin spurning um að skattahækkun verður alltaf þess valdandi að hætta á samdrætti eykst, en menn hafa látið slíkt yfir sig ganga þegar þeir hafa metið það svo að það væri nauðsynlegt og það væri forgangsatriði að bjarga ríkissjóði, afleiðingar af því ef ríkissjóður færi illa væru alvarlegri en það sem fylgdi því að framlengja efnahagslægð eitthvað.

Nú háttar svo til á Íslandi, frú forseti, að við höfum lent í því að í kjölfar bankahrunsins varð alveg gríðarlegur samdráttur í efnahagslífi okkar. Jafnframt þurfum við að draga saman útgjöld þegar kemur að hinu opinbera. Það mun valda samdrætti. Af þeirri staðreynd að heimilin hafa minna á milli handanna til að kaupa vöru og þjónustu — af því að lánin hafa hækkað, íbúðalánin, bílalánin, neyslulánin, öll lán hafa hækkað annars vegar vegna þess að gengi íslensku krónunnar hrundi og hins vegar vegna þess að verðbólgan hefur hækkað lánin — má ljóst vera að enn meiri samdráttur er yfirvofandi. Nú þegar, frú forseti, er atvinnuleysið allt of mikið og stór hluti íslenskra heimila hefur mátt þola það að laun hafa verið lækkuð. Með öðrum orðum, allt bendir til þess að áframhaldandi samdráttur verði. Við slíkar aðstæður verður hið opinbera að gera allt sem í þess valdi stendur til að reyna að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað. Um þetta hljóta allir að vera sammála.

Ég væri í hópi þeirra sem segðu að ef engar aðrar leiðir væru en þær að hækka skatta til að koma í veg fyrir að ríkissjóður færi nánast á hausinn yrðu menn að sætta sig við lengri kreppu og dýpri, meiri samdrátt hjá heimilunum í landinu, meiri samdrátt kaupmáttar, meira atvinnuleysi. Það væri sennilega óumflýjanlegt. Þó væri skynsamlegast ef menn treystu sér til að skera þá meira niður í ríkisútgjöldum en allar rannsóknir sýna að líklegra er að við náum atvinnulífinu aftur af stað með skattalækkunum heldur en auknum útgjöldum ríkissjóðs. En það er pólitískur veruleiki sem við horfumst í augu við að við verðum að gæta að ákveðinni þjónustu í samfélagi okkar og takmörk eru fyrir því hvað við komumst langt niður með ríkissjóð í útgjöldum. En þegar fyrir liggur, frú forseti, útreiknuð og útfærð áætlun um hvernig við getum bjargað ríkissjóði, komist í gegnum þessa kreppu með ríkissjóðinn og á sama tíma örvað hagkerfið þá sætir það furðu að hlýða á margt af því sem fram hefur komið í málflutningi stjórnarliða, hv. þingmanna og hæstv. ráðherra, sem tala eins og núna sé brýn nauðsyn á því að breyta og umbylta íslenska skattkerfinu til að ná fram einhverjum pólitískum markmiðum. Verkefni dagsins og næstu mánaða og missira, frú forseti, er að bjarga íslenskri þjóð úr þeirri kreppu sem við stöndum núna frammi fyrir. Vel má vera að það séu pólitískar deilur um hvernig skattkerfið eigi að vera uppbyggt, hvort það sé fyrst og fremst notað til að jafna tekjur eða til að afla ríkissjóði tekna. Sá pólitíski ágreiningur er eðlilegur. En það er hörmulegt til þess að vita að ekki skuli hafa náðst samstaða í þinginu um að fara aðra leið en þá sem nú blasir við til að vinna okkur út úr kreppunni. Ég verð að segja eins og er, það hefði verið skynsamlegra fyrir ríkisstjórnina að taka þá leið sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram, sem ég veit að góður stuðningur er við hjá stjórnarandstöðunni allri, og vinna þá á næstu 2–3 árum þær breytingar sem þeir flokkar sem nú mynda ríkisstjórnina vilja gera á skattkerfinu til að ná fram því sem þeir kalla meira réttlæti. Nú er frægt hvernig þeir flokkar hafa talið sjálfa sig vera handhafa hins endanlega réttlætis en sumum finnst réttlæti þeirra jafnvel verra en versta ranglæti heimsins.

Þess vegna, frú forseti, ítrekum við sjálfstæðismenn enn á ný að það er svo hættulegt fyrir okkur að fara að hækka skatta við þessar aðstæður að allt að því er hægt að fullyrða með vissu að þær efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar munu valda skaða. Enn á ný, frú forseti, minni ég á að þegar kreppan varð í Bandaríkjunum, vegna þess að fjármálakerfið þar lenti í ógöngum árið 1929, þá var það svo að til þurfti rangar aðgerðir ríkisstjórnar Bandaríkjanna og seðlabanka Bandaríkjanna, bæði í stjórn peningamála, í skattamálum og í ríkisfjármálum, til að breyta þeirri kreppu sem á Bandaríkjunum skall yfir í kreppuna miklu. Hún varð nefnilega, frú forseti, ekki kreppan mikla fyrr en rangar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar buldu og dundu yfir. Við stöndum frammi fyrir því núna á Íslandi að vegna aðgerða og þeirrar stefnu sem núverandi ríkisstjórn leggur af stað með sem byggir á skattahækkunum ofan á þann samdrátt sem orðið hefur í hagkerfinu og fyrirsjáanlegur er á næstu missirum vegna þeirra aðstæðna sem ég fór yfir áðan, þá er svo augljóst að kreppan á Íslandi mun dýpka og hún mun verða lengri.

Það er valkostur, frú forseti, og það er alveg rétt sem stjórnarliðar hafa bent á að með því að taka þá peninga sem ríkið sannarlega á í séreignarlífeyrissjóðunum, peninga sem ríkið á, að ef við tökum þá núna eyðum við þeim ekki seinna. Það er alveg hárrétt. En þá ber að horfa til þess hver stærð almenna lífeyrissjóðakerfisins er og hversu mikla fjármuni ríkið á inni í því kerfi. Menn verða að horfa á valkostina. Ef við förum ekki þá leið sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til og ef það gengur eftir sem færa má sterk rök fyrir að muni gerast gangi skattaákvarðanir og áform ríkisstjórnarinnar eftir aukast líkur á landflótta. Þá munu fleiri Íslendingar, eigi þeir þess kost, flytja af landi brott og sækja sér störf annars staðar. Þetta var reynsla t.d. Færeyinga. Það er ekki svo að hægt sé að hækka skatta og ætlast til að það eina sem gerist sé að ríkissjóður fái meiri peninga. Hærri skattar enn og aftur munu auka samdráttinn og munu auka líkur á fólksflótta, munu draga úr efnahagsstarfseminni og draga um leið líka úr tekjum ríkissjóðs þegar upp verður staðið. Það eru góðar líkur á því eða öllu heldur, frú forseti, svo ég leiðrétti mig strax, það eru slæmar líkur á því.

Þess vegna, frú forseti, er það allt svo hörmulegt hvernig að þessum skattatillögum ríkisstjórnarinnar hefur verið staðið. Þær eru illa útfærðar, þær eru vanhugsaðar og bent hefur verið á, bæði í efnahags- og skattanefnd og í þingsal, að ýmis atriði í útfærslu þessara tillagna ganga ýmist ekki upp eða munu valda verulegum skaða. Efnahagsáhrifin verða augljós. Það er ógæfa fyrir okkur að svona skuli hafa verið staðið að málum.

Frú forseti. Ríkisstjórn Íslands, ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, er að dýpka og lengja þá kreppu sem við stöndum nú frammi fyrir og því fylgir mikil ábyrgð.