138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[11:13]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í kjölfar bankahrunsins fyrir um ári síðan kom skýr krafa frá almenningi um að þingheimur og þingmenn mundu vanda sig, taka sér tíma í að fara yfir það sem hefði farið úrskeiðis og koma með vel ígrundaðar tillögur um hvernig koma mætti þjóðinni úr þeim vanda sem hún enn glímir við. Síðasti ræðumaður orðaði það ágætlega. Við Íslendingar erum í kreppu en ég hef skynjað það svo úti í þjóðfélaginu að fólk upplifir það ekki enn þá að kreppan sé almennilega skollin á. Það er vegna þess að velferðarkerfið og sá grunnur sem hefur verið til staðar og var lagður á síðustu 10 árum er góður, hann hefur fleytt þjóðinni áfram það ár sem er liðið er frá bankahruninu.

Við í stjórnarandstöðunni höfum ítrekað bent á að þau skref sem nú er verið að stíga muni dýpka kreppuna, þau muni gera kreppu sem hefði getað varað í stuttan tíma og hefði getað snert landsmenn lítils háttar, meiri og að hún geti varað í langan tíma. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að þegar krafa almennings er að þingmenn vandi sig skuli ríkisstjórnin viðhafa þau vinnubrögð sem hún hefur sýnt á undanförnum dögum. Það er verið að umbylta skattkerfi þjóðarinnar, og hvenær komu þær skattatillögur fram? Fyrir um 20 dögum. Þetta er keyrt í gegnum Alþingi með látum og vonast til að nefndir Alþingis fái ráðrúm til að breyta slæmum tillögum í a.m.k. þolanlegar. Við í stjórnarandstöðunni og við í Framsóknarflokknum höfum lagt okkur öll fram. Það hefur örlítið þokast í rétta átt en ekki nægilega. Framsóknarflokkurinn leggur því til að málinu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar og það er ekki traustsyfirlýsing til núverandi ríkisstjórnar. Þessum skattafrumvörpum ætti nánast öllum að vísa út í hafsauga en reglur Alþingis leyfa því miður ekki að það sé orðað með þeim hætti.

Virðulegi forseti. Eitt skýrasta og besta dæmið um það hversu slæleg vinnubrögðin eru er þegar það uppgötvaðist í fjárlaganefnd um daginn að hæstv. ríkisstjórn gleymdi að sækja um heimild í lögum til að selja bankana. (ÖJ: Einkavæða.) Einkavæða bankana, og kemur vel á vondan vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir hafa í mörg, mörg ár talað um að einkavæðingin sem gerð var 2002 hefði verið illa framkvæmd en viðhafa svo nákvæmlega sömu vinnubrögð. Ef þingheimur lærir ekki af mistökum fyrri ára, sama hver á í hlut, er illa komið fyrir þjóðinni. Ef það er svo, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á, að vinnubrögð núverandi ríkisstjórnar eru jafnvel verri en þeirra sem hafa setið á undan á þjóðin ekki von á góðu og þá er það einfaldlega þannig, frú forseti, að við í stjórnarandstöðunni verðum að taka okkur meira á, við verðum að benda ítrekað og oftar á þau mistök sem nú er verið að gera vegna þess að þau verða ekki tekin til baka.

Hvað er ríkisstjórnin er að gera með skattahækkununum? Mér reiknast til ásamt starfsmönnum Alþingis að ríkisstjórnin ætli sér að sækja 51 milljarð í vasa skattgreiðenda, en ég tek fram að það er afar erfitt að nálgast þessar tölur, sérstaklega í ljósi þess að þær breytast dag frá degi og þá skeikar um milljarða. Tökum sem dæmi að ríkisstjórnin ætlaði að reikna sér arð frá sölunni á Arion banka algerlega án lagaheimilda og hrökklaðist til baka eftir að stjórnarandstaðan benti á að þetta væri mjög líklega kolólöglegt, en þetta eru vinnubrögðin. Ríkisstjórnin er eins og ég segi að sækja sér um 51 milljarð, þessi tala er nefnd með öllum fyrirvörum. En höfum eitt í huga: Vaxtakostnaður ríkisins á þessu ári af Icesave er 45 milljarðar. Allar þær skattbreytingar sem nú dynja á landsmönnum munu fara í það eitt að greiða vexti af Icesave. Tekjuskattur 70 þúsund skattgreiðenda mun bara fara í það að greiða vextina af Icesave. Mér skilst að um sé að ræða alla íbúa Kópavogs, Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar og Akraness og ég gleymi örugglega einhverjum. Skattgreiðendur eru 180 þúsund og 70 þúsund þeirra munu greiða vexti af Icesave og hér leyfa menn sér það í umræðunni að koma upp og segja að þeir standi um leið vörð um velferðarkerfið. Það gengur einfaldlega ekki upp, frú forseti. Það er ekki hægt að leggja jafnmiklar álögur á fyrirtæki og einstaklinga í landinu ofan á Icesave og segja um leið að staðinn sé vörður um velferðarkerfið.

Hvað gerist ef tekjur ríkissjóðs lækka? Skorið verður niður í velferðarkerfinu og það er einmitt það sem við framsóknarmenn höfum gagnrýnt, að hér sé verið að ráðast á þá sem síst skyldi. Ráðist var á aldraða og öryrkja í sumar. Þeir hafa ítrekað lýst yfir óánægju sinni með framgang ríkisstjórnarinnar. Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað komið fram og sagt að stöðugleikasáttmálinn sé í mikilli óvissu og að allir samningar sem ríkisstjórnin hefur gert við þessa aðila vinnumarkaðarins séu í rauninni sviknir, sviknir af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Við framsóknarmenn lögðum fram skynsamlega tillögu. Hæstv. fjármálaráðherra kom upp í ræðustól áðan og sagði að tillögur okkar væru óábyrgar. Ég hafna þeim málflutningi algerlega. Við leggjum til að farið verði í hækkanir í því skattkerfi sem við búum við núna. Þar er hægt að sækja tekjur án þess að það bitni á millistéttinni og þeim sem minna mega sín. Þingmenn úr öðrum þingflokkum hafa komið hér upp og sagt og tekið undir að það sé hægt að hækka persónuafsláttinn og það er einmitt það sem við framsóknarmenn höfum bent á. Það var samþykkt í tíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að hækka persónuafsláttinn, að hann mundi fylgja verðlagi, en nú er lagt til að slíkt verði ekki gert. Það eru svik á samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins. Er nokkur furða að þeir lýsi yfir að ríkisstjórnin svíki allt sem hægt er að svíkja?

Við leggjum líka til og tökum að hluta til undir með sjálfstæðismönnum sem hafa bent á það að hægt sé að sækja tekjur í séreignarlífeyrissparnað. Við viljum fara milliveginn, vinna með núverandi skattkerfi og sækja helminginn í séreignarlífeyrissparnaðinn eða um það bil. Það er skynsamleg leið. Í nefndaráliti meiri hlutans benda menn nefnilega sjálfir á þá ítarlegu og miklu gagnrýni sem komið hefur frá Alþýðusambandinu, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og fleirum. Þar er varað við flækjustigi tillagna ríkisstjórnarinnar. Af hverju? Jú, vegna þess að þær leiða til mikilla eftirágreiðslna, innheimtuhlutfallið mun lækka og sú skylda að launamaður skuli tilkynna atvinnurekanda hvaða skatthlutfalli hann tilheyrir væri erfiðleikum bundið og í sumum tilfellum ómögulegt. Þá hafa þeir líka bent á að hin fulla samsköttun á tekjum samskattaðra aðila yrði rofin en bætur yrðu eftir sem áður miðaðar við samanlagðar tekjur.

Formaður efnahags- og skattanefndar, hv. þm. Helgi Hjörvar, kom jafnvel í ræðustól og viðurkenndi að því miður væri ekki hægt að ganga skrefið til fulls vegna þess að það sem hér væri verið að gera væri of flókið. Ég skildi hv. þingmann ekki öðruvísi. Hvenær eiga þessi lög að taka gildi? Eftir rúma viku, hæstv. forseti, 1. janúar 2010 eiga landsmenn að taka á sig skattkerfi sem nánast enginn veit hvernig á að framkvæma og nánast enginn hefur farið almennilega yfir. Hvað mun þetta leiða af sér? Gríðarlegan kostnað, frú forseti, gríðarlegan kostnað fyrir einstaklinga, fyrir fyrirtæki sem þurfa að umbylta tölvukerfum og því sem þau hafa til að reikna út í frekar einföldu skattkerfi. Þau munu leggja fram gríðarlegar fjárhæðir.

Þá vil ég koma að því höfuðatriði sem við framsóknarmenn höfum verið að benda á, að það þarf að slá skjaldborg um heimilin og fjölskyldurnar í landinu. (ÞrB: Tapað/fundið.) Hér var kallað fram í að það væri tapað/fundið á Alþingi. Hv. þm. Þráinn Bertelsson benti á það. (Forseti hringir.) Ég ítreka það að við framsóknarmenn höfum lagt til að slegin verði skjaldborg um heimilin (Forseti hringir.) og ég lýk mínu máli með því að kalla eftir því frá hæstv. ríkisstjórn.