138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[12:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum mjög viðamiklar lagabreytingar og gefst lítill tími til þess. Ég verð að byrja á því að ræða um misskilning hv. þm. Helga Hjörvars, formanns efnahags- og skattanefndar, en hann áttar sig ekki á því sem er löngu þekkt að það er mikill munur á fjármagnstekjum og venjulegum launatekjum. Það var farið í gegnum það í nefnd sem fjallaði um þetta fyrir löngu síðan og tók þá ákvörðun að taka upp samræmdan skatt, 10%, vegna þess að fjármagn rýrnar í verðbólgu, bæði sparifé, hlutafé o.s.frv. Til að mæta verðbólgutapinu þurfa skattarnir að vera lægri. Þegar verðbólgan er t.d. 18% og menn eru með 10% vaxtatekjur af innstæðu rýrnar innstæðan verulega en viðkomandi borgar 1% í skatt. Fyrir utan þá sem hafa tapað hlutafé sem ekki kemur skattkerfinu neitt við eða leigu sem er með kostnað og annað slíkt. Það er reyndar búið að taka tillit til þess að einhverju leyti, það er verið að flækja kerfið óskaplega.

Síðan eru það launatekjur. Þar eru dagpeningar og bílastyrkir inni sem menn geta dregið frá en það gerir þetta ekki sambærilegt. Hv. þingmaður nefndi reiknaðar tekjur sem dæmi um flækingu en ég vil kalla það uppgjöf skattyfirvalda við að framfylgja lögunum. Þau áttu alltaf að vera mikið harðari á því að gefa út úrskurði um hvað væru reiknaðar tekjur.

Hraðinn við þetta frumvarp er ótrúlegur. Þrjár umsagnir bárust í nótt og í morgun, ein frá ASÍ þar sem þeir gagnrýna harðlega að hætt sé við að verðtryggja persónuafsláttinn. Umsögnin er undirrituð af Gylfa Arnbjörnssyni og hann bendir á það sem er alveg hárrétt, frú forseti, að það eru vinstri stjórnin 1989 og vinstri stjórnin 2009, 20 árum seinna, sem hafa afnumið verðtryggingu persónuafsláttar en það kemur lágtekjufólki langverst. Það eru sem sagt vinstri stjórnir sem afnema þetta. Svo er hér umsögn frá manni sem heitir Árni Þór Hlynsson og bendir á að það sé alveg óvíst hvernig eigi að framkvæma þessa lagasetningu um að 50% af arði yfir 20% séu laun. Á að borga skatt af þeim arði líka og svo laun? Hvenær er gjalddaginn? Á að borga tryggingagjald af þessu? Á að borga í lífeyrissjóð? Hvenær er gjalddaginn á því? Eru komnir dráttarvextir á það þegar menn geta borgað? Hann bendir á fjölmörg atriði. Þessi umsögn barst í gær og hefur engin áhrif á málið. Við munum væntanlega leiðrétta þetta strax í janúar eða mjög fljótlega. Það þarf að leiðrétta mjög margt. Annar maður sem skrifaði umsögn í gær, Eiríkur Baldvin Þorsteinsson, bendir á dæmi um tvenn hjón. Í öðru tilvikinu er makinn með 700 þús. kr. á mánuði og hinn 300 þús. kr. og hins vegar er annar með milljón á mánuði, þ.e. sömu heimilistekjur, og hinn makinn er heima yfir börnum, t.d. í tilfelli sjómanns. Í báðum tilfellum eru heimilistekjurnar milljón en önnur fjölskyldan borgar 250 þús. kr. meira. Ég get ekki farið nánar út í þetta.

Heildarásýnd frumvarpsins er dæmigerð fyrir vinstri frumvörp og það er svo sem allt í lagi ef menn hefðu gefið sér almennilegan tíma til að vinna úr þessum frumvörpum og gera það almennilega þannig að þau væru ekki full af göllum. Þessi frumvörp flækja skattkerfið alveg ótrúlega, frú forseti. Þau auka skatta á heimilin í landinu. Markmiðið er bæði að stýra fólki og auka skattbyrðina um 44 milljarða sýnist mér. Það eru 150 þús. kr. á mann eða 600 þús. kr. á fjögurra manna fjölskyldu. Þó að menn þykist gera vel við þá sem verst eru settir þá gerist það einmitt að þeir verða sérstaklega fyrir barðinu á þessum frumvörpum, olíugjaldi og öðru slíku, og því að persónuafsláttur fer ekki eftir verðlagi. Þessi frumvörp eru öll meiri háttar mistök. Þau ætla sér að laga kreppu með því að skattleggja löskuð heimili og fjölskyldur í landinu. Ég vara eindregið við þessu, að menn skuli fara þessa leið, sérstaklega þegar í boði er önnur leið sem er að skattleggja séreignarsparnaðinn. Þá hefðu menn getað legið yfir þessum frumvörpum í rólegheitum í heilt ár og reynt að sníða af þeim verstu agnúana, þeir sem dreymir um að koma á vinstri sköttum.