138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:54]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er fjárlagafrumvarpið við 3. umr. og ljóst að það á að fara að greiða atkvæði um það á morgun. Einn af þeim liðum sem kemur á tekjuhliðina í þessu fjárlagafrumvarpi er 1,2 milljarða kr. fyrirframgreiðsla skatta af stóriðjufyrirtækjunum. Nú vill svo til að ég sit í hv. iðnaðarnefnd og þar voru til umfjöllunar viðbætur við fjárfestingarsamninga stórorkunotendanna til að gera okkur kleift að fá þessa fyrirframgreiðslu. Iðnaðarnefnd fékk á fund til sín Ríkisendurskoðun þar sem kom fram að það mundi alls ekki samræmast reikningsskilavenjum að bóka þessa fyrirframgreiðslu eins og ætlunin var, jafnframt að sá hraði sem var á málinu — það var hægt mikið á því og síðan var okkur tilkynnt að engir frekari fundir yrðu um þetta mál eða önnur í iðnaðarnefnd þannig að það er eins og að þetta mál allt saman sé einhvern veginn að gufa upp.

Það sem mig langar til að spyrja hv. formann fjárlaganefndar, Guðbjart Hannesson, er: Er ætlunin að lagt verði fyrir þingið til atkvæðagreiðslu á morgun, væntanlega, fjárlagafrumvarp þar sem vitað er um gat upp á 1,2 milljarða kr.? Telur formaðurinn þetta eðlileg vinnubrögð?