138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:59]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir málefnalega umfjöllun um frumvarpið áðan, eins og hans er von og vísa. Hér fyrir utan í dag fjölmenntu verktakar til að mótmæla því að ekki væri meiri atvinnu að hafa fyrir þann stóra flokk karla og kvenna sem vinnur á jarðvinnuvélum og stórum vinnuvélum. Mótmælendur afhentu fjárlaganefnd Alþingis áskorun um að ráðast þegar í stað í arðbærar framkvæmdir til að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Samtals munu eitthvað á annað hundrað vélar hafa verið í þessum aðgerðum.

Miðað við fréttaflutninginn í dag er staða verktaka um þessar mundir alvarleg. Engin önnur starfsgrein hefur orðið verr úti í þessum mikla samdrætti en jarðvinnu- og byggingariðnaðurinn. Fram kom í máli forsvarsmanna þessara mótmæla að tæplega 18.000 manns hafi haft atvinnu af þessum málaflokki fyrir hrun en séu nú um 5.000.

Fulltrúar sjálfstæðismanna lögðu til, og þess sér stað í nefndaráliti þeirra fyrir 2. umr. þessa máls, að Vegagerðinni yrði heimilað að nýta óhafnar fjárveitingar um síðustu áramót, að framlag til vegamála yrði þannig aukið um 4,4 milljarða kr. og því fé varið til að ráðast í mannaflsfrekar framkvæmdir um land allt og frekar til smærri verka en stærri.

Frú forseti. Það stendur í nefndarálitinu að þessi aðgerð mundi skapa bæði atvinnu og skila virðisauka til samfélagsins. Hún mundi einnig koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot meðal verktaka, ekki síst þeirra smærri.

Ég hitti nokkra mótmælendur fyrir utan áðan sem spurðu einmitt eftir því hvort þetta mál og þessar athugasemdir frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd hefðu verið teknar til umræðu og hvort meiri hluti fjárlaganefndar hefði fallist á þær, og ef ekki, með hvaða rökum. Nú beini ég þeirri spurningu hér með til hv. þm. Guðbjarts Hannessonar.