138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi stefnuna eða ástand efnahagsmála eins og hér hefur verið nefnt verða menn auðvitað að átta sig á því að það er nákvæmlega þess vegna sem við erum í þessari stöðu. Ég hef margítrekað sagt það í ræðustóli að öll þau úrræði sem við hefðum átt að grípa til, þ.e. við hefðum átt að lækka skatta, við hefðum átt að auka lántökur og ráðast í meiri framkvæmdir — því miður eigum við ekki þessi úrræði einfaldlega vegna þess að við erum mjög skuldsett.

Við erum að koma með fjárlög sem eiga að vera með 100 milljarða halla og gríðarlegum vaxtakostnaði, næstum 100 milljarðar líka, þannig að við eru að tala um það háar upphæðir að erfitt er að setja inn einhvern kraft í efnahagslífið plús það að við verðum auðvitað að stilla okkur upp á nýtt miðað við nýjan raunveruleika.

Það er unnið á mörgum stöðum að því að reyna að koma af stað framkvæmdum eftir efnum og ástæðum, t.d. við Suðurlandsveg, Vesturlandsveg, nýjan spítala sem ég nefndi í ræðu minni og fleiri atriði. Við skulum vona að okkur takist að þoka einhverjum af þessum verkefnum áfram. Það er ekki auðvelt að endurreisa samfélagið með þessum takmörkuðu miðlum vegna þess einfaldlega að við vorum búin að koma okkur í svo ótrúlega vonda stöðu og framkvæma langt umfram það sem innstæða var fyrir, því miður.