138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður telur að stjórnarmeirihlutinn sé þreyttur og þrotinn að kröftum nú þegar á fyrsta ári þessarar ríkisstjórnar. Ég er a.m.k. ekki dasaðri en það að ég ákvað að koma upp í andsvar við hv. þingmann og í raun gæti ég alveg sagt hið sama. Mér hefur fundist stjórnarandstaðan vera hálfpunkteruð núna síðustu daga og velti fyrir mér hvort hún hafi ofreynt sig á Icesave-málþófi. En nóg um það.

Ég vil gera þá athugasemd að við erum — og ég persónulega, hafandi skoðað það mál nokkuð vel — algerlega ósammála því að fjármálaráðuneytið skorti nokkrar heimildir til þess að ganga frá málefnum bankanna eins og það hefur verið gert. Þegar menn kynna sér grundvöll þeirra samninga kemur í ljós að þar fer engin sala fram, enda skilst mér í reynd að Ríkisendurskoðun og aðrir lögspekingar séu ekki að tala um að heimild vanti til hefðbundinnar sölu ríkiseigna heldur til að taka af allan vafa um að þessi ráðstöfun, á þeim grunni sem hún er samkvæmt samningunum, geti farið fram.

Í reynd er það þannig bókhaldslega og reikningslega og grundvöllur samningagerðarinnar er sá að kröfuhafarnir eiga eignarhlutinn að því marki sem þeir eiga hann, 95% eða 87% eða 19%, frá stofnun gömlu bankanna. Ríkið er þar af leiðandi ekki að selja það sem það í raun hafði átt. Ríkið lagði eingöngu fram lágmarkshlutafé á sínum tíma, 775 milljónir ef ég man rétt, og forfjármagnaði svo tímabundið, eftir að samningar lágu fyrir í haust, bankana hvað eigið fé snerti sem gengur til baka um leið og kröfuhafar hafa tekið ákvörðun um að eignast þá frá byrjun. Þar af leiðandi fer í rauninni aldrei nein sala fram. Ríkið hefði ekki eignast stærri hlut í bönkunum að okkar mati en upphaflega hlutafjárframlagið fyrr en kröfuhafar hefðu komist að þeirri (Forseti hringir.) niðurstöðu að taka ekki eignarhlutinn. Þá hefði slík eign ríkisins orðið virk.