138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:02]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir svarið. Það var skynsamlegt eins og margt af því sem kom fram í ræðu hans áðan. Hann nefnir að það sé stórhættulegt að ætla sér að sækja tekjur og setja þær svo allar í afborganir af lánum. Það sem þingmaðurinn sagði kannski ekki en ég hefði samt viljað heyra hann segja er að mikill hluti þeirra fer í dráttarvexti af Icesave-láninu einu og sér. Ég hef reiknað það út að skattatillögur ríkisstjórnarinnar eigi að skapa tekjur inn í ríkissjóð upp á rúma 50 milljarða hugsanlega. Það er reyndar erfitt að fá þær upplýsingar eins og þingmaðurinn veit. Mig langar að spyrja hann hvort hann hafi ekki sömu áhyggjur og ég af Icesave-samkomulaginu og hvort hann hafi kynnt sér þær tillögur eða þau álit sem hafa komið eins og t.d. frá Mishcon de Reya, bresku lögmannsstofunni, þar sem í rauninni er varað við því að Íslendingar samþykki Icesave-samningana.