138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, jú, það er mikið rétt að m.a. eru vaxtagreiðslur af Icesave þungbærar, 40 milljarðar á ári eða nærfellt það. Það eru gríðarlegir fjármunir. Það getur svo sem verið að Íslandi takist með einhverjum hætti að standa undir öllum þeim skuldbindingum sem yfir okkur vofa, ég hef mínar efasemdir um það en eitt er ég viss um, það er ekki hægt að gera það með því að sækja þá peninga í vasa almennings. Það er alveg útilokað að fjármagna allar þessar skuldir með aukinni skattheimtu, það mun bara ekki ganga upp. Fólk mun náttúrlega og heimilin kikna og fyrirtækin fara á hausinn. Það er hugsanlegt að gera það með því að sækja fjármuni, eins og t.d. Hreyfingin leggur til, í auðlindagjöld. Þá er ég að tala um alvöruauðlindagjöld en ekki sturtuskatta eins og ríkisstjórnin hefur verið að leggja til. Það eru þær atvinnugreinar sem standa best þessa dagana og það eru þær atvinnugreinar sem munu standa best sennilega næsta áratuginn, því að í spám Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir að við munum búa við viðvarandi lágt raungengi og lágt gengi á krónunni næstu árin, í mörg ár. Útflutningsgreinarnar munu því ganga vel og verða þar af leiðandi aflögufærar í gegnum auðlindagjöld. En með skattheimtu tekst þetta ekki.

Varðandi lögfræðiálit Mishcon de Reya, ég hef ekki lesið það í þaula, ég reyndi að renna yfir það í nótt en það er ansi þungur lestur. Það snýr að mörgu leyti að því sama og við höfum oft sagt að þeir samningar sem gerðir hafa verið við Breta og Hollendinga eru ekki góðir samningar. Þeir leggja of þungar byrðar á þjóðina og það eru engar tryggingar í þeim fyrir því að Íslendingar komist upp með að greiða ekki þó að hér verði enginn hagvöxtur og ég held að það séu því miður talsverðar líkur á því að það verði lítill hagvöxtur hér á landi á næstu árum.