138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við erum í 3. umr. um fjárlög ársins 2010 og nú eru ekki nema örfáir dagar eftir þar til þau taka gildi. Inn í frumvarp þetta vantar risastóra þætti, þar er að nefna Icesave. Talið er að vextirnir af Icesave árið 2009 séu 45 milljarðar og gengishækkunin er, vegna þess hvað gengi pundsins og evrunnar hefur hækkað, vel yfir 100 milljarðar, herra forseti. Það vantar. Það eru sannarlega aukin útgjöld á þessu ári út af Icesave, nánast 150 milljarðar. Það vantar. Þetta gefur okkur sem erum á móti Icesave kannski ákveðna von sem felst í því að ríkisstjórnin trúi bara ekki á það að ná þessu í gegn. Það getur vel verið að það sé von en það vill svo til að hæstv. fjármálaráðherra er búinn að skrifa undir Icesave-samkomulagið og sett voru lög í haust, alla vega um að veita ríkisábyrgð á þennan samning. Ég hélt því að þetta væri orðin ansi mikil skuldbinding. Það er ljóst að í einhverju formi verður Icesave samþykkt, þó að við kannski, sem væri best, frestuðum þessu eða biðum með þetta. Ég ætla nú ekki að ræða Icesave neitt sérstaklega mikið, en ummæli eða skýrsla hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, gefur mér ákveðna von um að Samfylkingin sjái að sér og bíði með þetta svo sem eins og í nokkra mánuði og þá geri ég ráð fyrir að Bretar og Hollendingar sjái sitt óvænna og sendi tilkynningu um að þeir fallist á lögin frá því í ágúst. En skuldbindingin er og hún á að vera þarna, herra forseti, og alveg ótrúlegt að hún skuli ekki vera í fjárlagafrumvarpinu.

Svo vantar líka miklu smærri liði, herra forseti, en engu að síður einhverja tugi milljarða. Það er tónlistarhúsið. Það virðist detta af himnum ofan. Ég er margbúinn að spyrja um það en það virðist enginn bera ábyrgð á því. Það er svo furðulegt að á sama tíma eru að berast fréttir frá sveitarfélögum eins og Álftanesi um að einmitt það sama er að detta á hausinn á þeim, eða þeir eru að detta ofan í djúpu laugina, sem er ástæðan fyrir hruni þeirra. Menn ætla ekki að læra neitt af þessu. Ég hefði nú haldið að þau varnaðarorð sem ég hef haft yfir hérna í áratugi einmitt um skuldsetningu sveitarfélaganna vegna íþróttamannvirkja, ég nefni Egilshöll og Reykjanesbæ, hefðu skilað einhverju. Víðast hvar eru sveitarfélög að leika sama leik og ríkið líka. Nú ætlar ríkið að byggja tónlistarhús sem dettur ofan af himnum og mér sýnist að næsta verkefni verði háskólasjúkrahús upp á 40 milljarða. Það vill svo vil, herra forseti, að það er nokkurn veginn það sama og vextirnir af Icesave. Dálítið athyglisvert. Heilt háskólasjúkrahús eru vextirnir af Icesave á einu ári, þ.e. við erum að borga í vexti eitt háskólasjúkrahús á ári til Breta og Hollendinga. Það virðist vera að menn ætli að fara út í að byggja það hús og plata litlu börnin okkar sem koma til með að borga skattana. En stjórnarskráin gerir ráð fyrir því að fólk sé ekki platað með þessum hætti. Hún gerir ráð fyrir því að allar skuldbindingar ríkissjóðs séu færðar til bókar, þannig að menn viti hvar þeir standa.

Svo er alveg furðuleg lántaka. Ég hélt að menn mundu nú bara gleyma þessu frumvarpi um lántöku hjá álfyrirtækjunum, þeir mundu bara skammast sín til þess. Ég verð að segja, herra forseti, að ég er alveg gáttaður á þessu. Menn eru sem sagt að semja við skattgreiðendur um að taka lán hjá þeim. Ég man ekki til þess að samið hafi verið við bíleigendur eða aðra um að taka lán hjá þeim í bensínskattinum en þetta er svipað. Ég spyr: Hvað gerist ef eitthvað af þessum fyrirtækjum verður gjaldþrota um mitt næsta ár og búið er að borga skattinn? Það hefur nú gerst að stórfyrirtæki hafi farið á hausinn úti í heimi, svo ég leyfi mér að segja þetta. Hvað gerist þá? Þarf ríkissjóður þá að endurgreiða af því að skattstofninn hvarf? Stofninn, þ.e. hagnaður og tekjur fyrirtækisins hvarf, þarf þá ríkissjóður að endurgreiða það? Ég veit ekki hvar menn enda með svona fyrirkomulagi. Ég veit ekki hvar menn enda.

Ég ætla ekki að tala meira um það. Ég ætla að gleðjast yfir því að búið er að einkavæða bankana. Þeir voru ohf. Ég benti á það mörgum sinnum að þeir voru ohf. Þeir voru alfarið í eigu ríkisins. Þar af leiðandi eru þeir ohf., opinbert hlutafélag. Það var aldrei farið að þeim lögum, herra forseti. Ég skil ekki af hverju menn eru að setja lög út og suður um jafnrétti kynjanna og ég veit ekki hvað og hvað en svo er ekki farið að þeim, því að samkvæmt lögum á í stjórnum opinberra hlutafélaga að vera jafnrétti kynjanna. Það var búið að ná því í gegn en ekki var farið eftir því. Hjá Kaupþingi voru fimm konur í stjórn, enginn karlmaður. Ekki jafnrétti kynjanna þar. Hjá öðrum bönkum voru eintómir karlmenn í stjórn, ekki var farið að lögum þar. Það er því dálítið skrýtið að menn setji lög út og suður og fari svo ekkert að þeim. Svo eiga fjölmiðlar og kjörnir fulltrúar rétt á að mæta á svona fundi og þá þarf að boða þá fundi. Það var ekki gert. Það er spurning hvort þeir aðalfundir sem hafa verið haldnir séu ekki allir ólöglegir. En nú er búið að selja bankana og menn komast að því að það var líka óheimilt. Þess vegna er á þskj. 571 frumvarp til laga um að staðfesta breytingar á eignarhaldinu. Snyrtilega orðað. Ég mundi nú segja að þetta væri sala á eignarhaldi, en þetta eru sem sagt breytingar á eignarhaldi.

Það er náttúrlega mjög óvisst hverjir eru eigendur að bönkunum. Það veit enginn hverjir þeir eru og dálítið skrýtið eða merkileg örlög hjá vinstri grænum að þurfa nú að lenda í þeim ósköpum að einkavæða bankana og selja þá til eigenda sem enginn veit hverjir eru. Þetta er eitthvað sem ég lagði til fyrir ári síðan og hef svo sem oft gaukað þessari hugmynd að mönnum því að þetta lagar ansi margt eins og t.d. ágreining um uppgjör á milli gamla og nýja bankans. Það er ekki áhugavert lengur. Eins styrkir þetta neyðarlögin þar sem þessir útlendu aðilar eru orðnir aðilar að bönkum sem byggja á innlendum innstæðum. Svo kemur þarna inn þekking erlendra aðila sem okkur Íslendinga hefur illilega vantað og síðan koma væntanlega lánatengsl og bætt staða ríkissjóðs af því hann er að selja. Það skýrir bætta stöðu ríkissjóðs undanfarið sem hæstv. fjármálaráðherra hefur verið að guma af, þ.e. eignasalan á bönkunum, lægri vextir og annað slíkt vegna þess að hann þarf ekki að leggja eins mikla peninga fram. Það er fínt. Nákvæmlega eins og við sjálfstæðismenn vildum, þ.e. nota eign ríkissjóðs í séreignarsparnaðinum, ná í hana og minnka þar með skuldbindingu ríkissjóðs, vexti og annað slíkt til framtíðar, vexti til framtíðar, en ekki mátti hlusta á það.

Við höfum verið að afgreiða hérna fullt af skattafrumvörpum og þau bera öll þess merki að vera samin af vinstri mönnum og ég skil það alveg. Ég fellst alveg á að þeir vilji kerfi sem ekki bara nær í tekjur af atvinnulífinu og heimilunum, heldur jafnar það líka kjör einstaklinga. Það er hugsjón þeirra. Ég skil það alveg. Sú hugsjón hlýtur að hafa í för með sér flækjur vegna þess að ef þú ætlar að taka tillit til þess hvernig maðurinn hefur það og ætlar að reyna að laga kjörin hans verðurðu að taka kjörin hans inn í skattkerfið og það er gert í auknum mæli. Þar af leiðandi verða kerfin óskaplega flókin.

En varðandi orkuskattana og kolefnisskattana, eða umhverfisskattana, gengu menn fulllangt í flækjustiginu, herra forseti. Settir voru á skattar sem eru svona um 500–600 kall í hvert skipti og það eru sennilega 1,2–1,5 milljónir færslna með svona litlum upphæðum. Engar tvær af þessum upphæðum eru eins af því að þær eru háðar því hvað menn fara oft í sturtu, þetta er sturtuskattur, og þær eru líka háðar því hvað menn nota mikið af rafmagni. Þetta eru alls konar litlar, pínulitlar upphæðir sem fljúga um kerfið og það þarf að hafa eftirlit með þessu öllu saman, skattinum og fleiru. Ég veit ekki hvað menn eru að fara út í.

Einkennið á öllum þessum skattalögum er að það er eins og teknar hafi verið ákvarðanir fyrir tveimur eða þremur vikum og ekkert samráð haft við einn eða neinn. Hraðinn og óðagotið var með þvílíkum ósköpum að allir umsagnaraðilar gagnrýndu það. Umsagnir voru að berast meira að segja í morgun og í gær, að 2. umr. lokinni og nefndin löngu búin að ljúka máli sínu, kom umsögn frá ASÍ þar sem gagnrýnt var harðlega að hér skuli vinstri stjórn hverfa frá því að verðtryggja persónuafslátt eins og vinstri stjórnin 1989. Það virðist vera einkenni á vinstri stjórnum að afnema verðtryggingu persónuafsláttar. Það var gert 1989 í vinstri stjórn þá og nú tuttugu árum seinna gerist það árið 2009. Það virðist sem sagt vera markmið vinstri stjórna að afnema verðtryggingu á persónuafslátt sem tryggir þó lægstu launin best. Það á sem sagt ekki að tryggja þau neitt frekar hér eftir.

Árið 2010 er að flestra mati, herra forseti, það ár sem verður erfiðast eftir hrunið. Farið var nokkuð mildilega með árið 2009 til að keyra ekki atvinnulífið í kaf í ágætu samstarfi vinstri grænna og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þá var ákveðið að fara ekki mjög mikið í árið 2009 en á árinu 2010 á að fara að taka á, þá á að skera, skerða og skattleggja. Það var skynsamlega valið að gera hvort tveggja að skerða velferðarkerfið og hækka skatta. Ósköp skynsamlegt. En menn hefðu getað farið betri leið, herra forseti. Menn hefðu getað farið leið sjálfstæðismanna og skattlagt séreignarsjóðina, þá er verið að ná í eign, það er sama og eignasala. Það er svipað og þegar hæstv. fjármálaráðherra seldi bankana tvo, þá batnaði staða ríkissjóðs, vextirnir lækkuðu og staðan batnaði. Hann gat þess reyndar ekki þegar hann talaði um að nú yrði bjartara fram undan, en það er vegna þess að hann seldi bankana. Ég er náttúrlega afskaplega hrifinn af því, herra forseti, af því að ég vil einkavædda banka og get ekki annað en tekið ofan fyrir vinstri grænum að einkavæða þessa tvo banka fyrir mig.

Staðan batnaði og menn eru sem sagt að selja eignir. Mér finnst að ríkið hefði alveg eins getað náð í eign sína hjá séreignarsparnaðinum. Þar á ríkið ákveðna eign og hugmynd sjálfstæðismanna var þannig útfærð. Hún kom í rauninni lítið við menn, losaði heilmikið fé og bætti stöðu sveitarfélaganna líka um 40 milljarða. Það getur vel verið að verktakarnir sem voru að mótmæla hérna áðan hefðu nú verið ánægðir með það, því að sveitarfélögin hefðu hugsanlega getað haldið uppi atvinnu í sínum ranni. Nei, það mátti ekki gera það af því þetta kom frá sjálfstæðismönnum, heyrðist mér. Margir voru sammála því að þetta væri skynsamlegt en ekki mátti samþykkja það af því að það voru rangir aðilar sem fundu þetta upp. Ég man það næst að gauka því að einhverjum öðrum ef mér dettur eitthvað sniðugt í hug, þ.e. að láta ekki sjálfstæðismenn bera það fram.

Það er ekki sama í hvaða röð menn gera hlutina, margir hafa rekið sig á það. Ef við hefðum fyrst notað séreignarsparnaðinn til þess að hlífa löskuðum heimilum og fyrirtækjum, einmitt núna þegar staðan er hvað verst í þessu áfalli og notað það til að skattleggja, bætt stöðu ríkissjóðs um 18–20 milljarða eða meira, 25 milljarða, og lækkað vexti, vaxtagreiðslur, til frambúðar, og síðan farið í skattbreytingarnar. Atvinnulífið hefði vonandi orðið þróttmeira eftir að hafa fengið svona vítamínsprautu í eitt ár og hefði getað borgað þessa skatta miklu léttar en það gerir núna. Það hefði verið miklu liprara fyrir atvinnulífið að borga skattana, þessa vinstri skatta, eftir ár og tími hefði gefist til að vinna þessa skatta almennilega. Ég er nærri viss um, ég benti reyndar á það í morgun, að það er fullt af villum í þessum frumvörpum sem þarf að byrja að laga strax í byrjun febrúar eða í lok janúar.

Það skiptir því verulegu máli í hvaða röð menn gera hlutina. Þegar ástandið er eins og það er núna er það eiginlega vitlausasta sem maður gerir að taka þann sem á bágt og reyna að pína út úr honum eitthvað meira. Það er samdóma álit allra að heimilin eru ekki vel stödd, alla vega nokkur stór hluti þeirra, kannski áhöld um hversu stór hluti, en það er ákveðinn hluti heimila sem á alveg nóg með að glíma við lækkandi lífskjör, hækkandi vöruverð, hækkandi lán, hækkandi erlend lán sérstaklega, og fara svo að borga hækkandi skatta líka. Það er ekki á bætandi. Og að þetta sé einhvern veginn gott fyrir lágtekjufólk er rangt.

Ég sýndi fram á það í minnihlutaáliti að tekjuskattskerfið hækkar skattbyrði lágtekjufólks um 3.266 kr. frá gildandi lögum. Þau gildandi lög hefðu getað gilt áfram ef við hefðum farið í séreignarsparnaðinn, þá hefði ekki þurft að gera neinar breytingar á skattalögum í heilt ár og ríkissjóður samt staðið betur. Og auk þess sem allir skattarnir, skattarnir á bensínið o.s.frv. koma að sjálfsögðu niður á lágtekjufólki líka. Það þurfa allir að taka bensín til að komast leiðar sinnar í vinnuna. Skattahækkanirnar koma illa við alla, líka lágtekjufólk.