138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.

336. mál
[20:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.

Þannig háttar til að menn hafa unnið að samkomulagi um uppgjör á milli gömlu og nýju bankanna, þ.e. Íslandsbanka, Arion banka og NBI við skilanefndirnar og gengið út frá því að þær heimildir sem voru í fjárlögum frá árinu 2008 og heimildir sem voru gefnar fyrir þetta ár mundu duga til að ganga frá málinu. En síðan komu upp einhverjar efasemdir um það og vangaveltur sem varð til þess að ég sem formaður fjárlaganefndar ákvað að skrifa bréf 15. desember til Ríkisendurskoðunar til að leita úrskurðar og sendi þá svohljóðandi bréf:

„Þann 10. október 2008 var undirrituð tilkynning til fyrirtækjaskrár um stofnun Nýja Glitnis banka hf.“ — Og tilgreind er kennitala. — „Innborgað hlutafé 775 millj. kr. Þann 7. október 2008 var undirrituð tilkynning til fyrirtækjaskrár um stofnun Nýja Landsbankans. Innborgað hlutafé 775 millj. kr. Þann 18. október 2008 var undirrituð tilkynning til fyrirtækjaskrár um stofnun Nýja Kaupþings banka. Innborgað hlutafé 775 millj. kr. Í öllum tilfellum var stofnandi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og staðfesti Ríkisendurskoðun samþykki fyrir endurskoðun á innborgun stofnfjár.“

Þetta er sem sagt sá gjörningur sem var á síðasta ári í október 2008, 7. október og 18. október.

Í 4. gr. fjáraukalaga 2008 er heimild fyrir stofnun bankanna og er orðrétt svohljóðandi, með leyfi forseta, í lið 7.14:

„Að stofna þrjú ný fjármálafyrirtæki á grundvelli 1. mgr. 1. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., og leggja hverju þeirra til 775 millj. kr. í stofnfé.“

Í 6. gr. fjárlaga 2009 er eftirfarandi heimild, í lið 7.18:

„Að leggja þremur nýjum fjármálafyrirtækjum sem stofnuð hafa verið á grundvelli 1. mgr. 1. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., samtals allt að 385 milljarða kr. í eigið fé.“

Í bréfinu spyr ég sem sagt hvort þessar samþykktir, annars vegar í 4. gr. fjáraukalaga 2008 og síðan heimildarákvæði í 6. gr. í fjárlögum 2009, séu fullnægjandi til þess að stofna bankana. Svar frá Ríkisendurskoðun var svohljóðandi, með leyfi forseta, það barst 15. desember síðdegis eða um kvöldið. Þar stendur:

„Fyrir liggur samkomulag ríkisins við skilanefndir Glitnis hf., Kaupþings banka hf. um yfirtöku þeirra síðarnefndu og meiri hluta hlutabréfa ríkissjóðs í Íslandsbanka hf. og Arion banka hf. Eins og kunnugt er voru þessir bankar stofnaðir á grundvelli laga nr. 125/2008 sem liður í aðgerð til að bjarga bankakerfinu. Í fjáraukalögum 2008 og í fjárlögum 2009 var síðan mælt nánar fyrir um heimildir til fjárútláta vegna stofnunar bankanna. Yfirtakan núna er þáttur í samkomulagi um uppgjör vegna þeirra eigna og skulda gömlu bankanna sem lagðir voru til nýju bankanna. Ríkissjóður heldur eftir 5% eignarhlut í Íslandsbanka og 13% í Arion banka.“

Þá kemur niðurstaðan frá Ríkisendurskoðun:

„Að mati Ríkisendurskoðunar felst í ofangreindu samkomulagi ráðstöfun á eignum ríkisins sem gera þarf grein fyrir í 6. gr. fjáraukalaga 2009, samanber til hliðsjónar ákvæði 29. gr. fjárreiðulaga. Skiptir þá ekki máli þótt fyrirkomulag og ráðstöfun þessara eignarhluta sé óvenjulegt og ekki fylgt venjubundnu söluferli samkvæmt verklagsreglum um útboð á sölu fyrirtækja. Þá skiptir heldur ekki máli í þessu sambandi hvort ósamið var um endurgjald af hálfu ríkisins fyrir mismuni yfirtekinna eigna og skulda frá gömlu bönkunum sem lagðir voru til þeirra nýju. Þá má benda á að hlutafélög voru á sínum tíma stofnuð með 100% eignarhlut ríkissjóðs og þó svo að hlutafé og annað eigið fé hafi verið aukið þá er verið að minnka eignarhlut ríkissjóðs með ráðstöfun þess til gömlu bankanna.“

Það er sem sagt mat Ríkisendurskoðunar að það þurfi frekari heimildir og í samráði við Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneytið flytur meiri hluti fjárlaganefndar það frumvarp sem hér er lagt fram sem er svohljóðandi í 1. gr.:

„Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs Íslands er heimilt að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf. við skilanefndir Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf., allt í tengslum við samninga sem gerðir hafa verið um uppgjör vegna yfirtekinna eigna og skulda í kjölfar ákvarðana Fjármálaeftirlitsins frá í október 2008 á grundvelli laga nr. 125/2008.“

Síðan eru skýringar í hverju ágreiningurinn var fólginn á milli fjármálaráðuneytisins og Ríkisendurskoðunar og rökstutt að það teljist góð stjórnsýsla og eðlilegt og nauðsynlegt að afla sérstakrar heimildar til þess að gengið sé örugglega frá málinu með lögformlegum hætti af hálfu Alþingis. Þannig er málið lagt fyrir þingið.