138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.

336. mál
[21:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér breytingu á eignarhaldi bankanna og ég hlýt að gleðjast yfir því. Það eru fjórar leiðir til að laga stöðu ríkissjóðs. Menn geta hækkað skatta, menn geta skorið niður í velferðarkerfinu og í útgjöldum ríkissjóðs, menn geta tekið upp skyldusparnað, sem er svipað og skattar nema það er endurgreitt, og menn geta selt eignir eða náð í eignir. Það sem við ræðum hér er sala á eignum. Menn geta líka náð í eignir eins og skattlagning séreignarsparnaðar er í reynd. Þar var hugmyndin að ná í eign sem ríkið átti og á hjá séreignarsjóðum eins og hjá lífeyrissjóðunum.

Hér er sem sagt verið að selja eign og allt voru þetta ohf.-fyrirtæki þó að það hafi ekki verið praktíserað sem slíkt. Ég benti á það snemma að þessi fyrirtæki, sem voru alfarið í eigu ríkisins, væru ohf. samkvæmt skilgreiningu, samkvæmt lögum um það fyrirbæri, og þar af leiðandi átti að vera jöfn kynjaskipting í stjórn og veita kjörnum fulltrúum og fjölmiðlum aðgang að aðalfundum og félagafundum. Þessu var ekki framfylgt og ég hef dálitlar áhyggjur af því að menn skuli ekki hafa framfylgt þeim lögum um ohf., sem eru mjög skýr og afdráttarlaus og ekki nokkur leið að lesa neitt annað út úr þeim en að bankarnir þrír hafi allir verið ohf. frá stofnun. En þeir eru það sem sagt ekki lengur eftir þá lagabreytingu sem við ræðum hér. Þeir voru alfarið í eigu ríkisins þannig að þegar þeir fara úr eigu ríkisins yfir í eitthvað annað geta menn kallað það hvað sem þeir vilja, menn geta kallað það breytingu, menn geta kallað það sölu, það skiptir í rauninni ekki máli.

Kosturinn við þessa aðgerð er sá að inn í landið flyst þekking. Það koma þarna erlendir aðilar sem eigendur og vonandi fylgir þeim þekking. Og þó að menn skjóti einhverju fyrirtæki þarna inn, frú forseti, sem er slitastjórnin, eitthvert innlent fyrirtæki sem hún á og á svo aftur bankana — á endanum eru það alltaf erlendir aðilar sem eiga þessi fyrirtæki, þessa banka, og þetta er erlent sama hvernig menn snúa því og venda. Það kemur sem sagt þekking inn í gegnum þessa aðila. Það koma líka tengsl og það er kannski meira virði, sem er þá aðgangur að lánamörkuðum, aðgangur að lánum, og það getur vel verið að það hjálpi mikið meira en alls konar lánshæfismat sem við erum að keppast við að ná og leggjum mikið á okkur. Svo kemur inn erlent fjármagn. Það hressir upp á gengið til lengri tíma litið og þetta tryggir líka neyðarlögin vegna þess að nú hafa þessir stóru erlendu aðilar hagsmuni af því að bankarnir gangi og að innstæðurnar séu tryggðar, þeir hafa hagsmuni af því að neyðarlögin haldi.

Það er eiginlega enginn ágreiningur um skipti á milli nýju og gömlu bankanna en það stefndi í mjög mikinn ágreining um það. Þegar eigendurnir eiga bankana segir sig náttúrlega sjálft að það verður miklu minni ágreiningur milli eigenda og nýju bankanna, þ.e. gömlu og nýju bankanna, um það. Það er líka jákvætt að það verður ekki lengur pólitík hvort fyrirtæki verða seld og hverjum og hvaða fyrirtæki fá að lifa og hvaða fyrirtæki fá að deyja heldur vonandi meira praktískir hagsmunir, hvað er arðvænlegt og hvað ekki, og ég treysti nýjum eigendum betur en pólitíkinni. Þá hef ég ekkert í sjálfu sér við núverandi ríkisstjórn að sakast heldur held ég að það sé alltaf slæmt þegar fólk sem á enga hagsmuni er að versla með mjög mikla hagsmuni. Þá á ég við embættismenn ríkisins sem munar kannski mikið um 100 milljónir en eru að fjalla um tugi milljarða þar sem 100 milljónir geta verið skiptimynt og býður upp á ýmislegt sem maður getur ímyndað sér.

Þetta bætir líka stöðu ríkisins. Þetta er sala. Það koma inn peningar, þ.e. að ríkið þarf að leggja minna fram. Það hefur komið í ljós undanfarið að þessi sala, eða þessi einkavæðing eða hvað menn vilja kalla það, hefur bætt stöðu ríkisins, lækkar vaxtagjöld. Hún lagar stöðu ríkisins eins og hver önnur sala. Eins og ég nefndi í upphafi er þetta einn af möguleikunum til að laga stöðu ríkissjóðs.

Hver er staða lántakenda hjá bönkunum? Ég sé ekki að hún eigi að versna neitt því að það er hagur nýrra eigenda að bankarnir gangi sem best, að þeir fari að skila hagnaði og hugsanlegt sé að selja þá og þeir fái sitt fé til baka eins mikið og hægt er. Þeir eru náttúrlega búnir að tapa óhemju, margir hverjir kröfuhafanna, alveg óhemju, og þeir munu vilja að þessi fyrirtæki gangi vel og skili arði og hluti af því er einmitt að meðhöndla lántakendur með skynsamlegum hætti, að keyra þá ekki í gjaldþrot, gera samninga við þá þannig að þeir geti borgað eins og þeir mögulega geta en ekkert umfram það. Það er hagur bankans að lántakendur hjá bankanum geti borgað.

Allt þetta gengur upp, frú forseti, þó að ekki sé búið að samþykkja Icesave. Maður fer því að velta fyrir sér þessari óskaplegu nauðhyggju sem tengist Icesave, að það þurfi að samþykkja það til að gera þetta og hitt. Svo kemur í ljós að það er hægt að gera allt án þess að samþykkja Icesave og það dynja engin ósköp yfir. Það áttu að dynja ósköp yfir í ágúst og það áttu að dynja ósköp yfir í september og október og hver dagsetningin á fætur annarri var nefnd sem einhver heimsendir. En það varð enginn heimsendir og er ekki orðinn enn og allt gengur þetta ágætlega. Í ljósi álits hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, til utanríkismálanefndar, þar sem hún varar eindregið við þessu, mundi ég leggja til við samfylkingarfólk, margt hvert, að það fari að skoða sinn hug og sjá hvort þessi greinda og glögga kona og mikli stjórnmálamaður, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hafi ekki á réttu að standa og hvort viðvaranir hennar séu ekki virkilega þess virði að á þær sé hlustað og að menn fresti afgreiðslu málsins svo sem eins og í tvo til þrjá mánuði og sjái til hvort ekki náist betri samningar við Breta og Hollendinga, sérstaklega varðandi vextina. Þá er ég aðallega að tala um raunvextina, það mætti gjarnan setja raunvaxtaþak á þetta, kannski hálft prósent í pundum og evrum eða að semja upp á nýtt eða þá hreinlega að við fengjum bréf frá Bretum og Hollendingum allt í einu upp úr þurru um að þeir fallist á fyrirvarana í lögunum sem eru í gildi.

Það má vel vera að þeir sjái sitt óvænna að missa hugsanlega mjög góðan samning út úr höndunum því að Icesave-samningurinn, eins og lögin frá því í sumar tóku á honum, er virkilega mjög góður. Hann er það góður að Bretar og Hollendingar fá greitt frá Íslendingum á meðan Íslendingar geta greitt, það er svo einfalt. Og þegar Íslendingar geta ekki greitt fá þeir ekki greitt en þá fengju þeir hvort sem er ekki greitt þannig að ég held að þeir hljóti að sjá sitt óvænna ef við frestum þessu eitthvað og bara samþykkja fyrirvarana en það þarf náttúrlega að kynna þeim af hverju fyrirvararnir voru settir. Ég held að hæstv. ríkisstjórn hafi brugðist í því að segja við Breta og Hollendinga að þetta séu tryggingarskilmálar sem eigi að tryggja íslenska þjóð fyrir því að verða örfátæk. Bretar og Hollendingar hafa engan hag af því að íslensk þjóð verði örfátæk og geti ekki borgað krónu af þessum samningum frekar en Þjóðverjar af nauðungarfriðarsamningum sínum eftir fyrri heimsstyrjöldina. Þeir borguðu aldrei nema 1/3 af því, þeir borguðu aldrei 2/3. Ég hugsa að ef Bretar og Hollendingar keyra Ísland of hart fái þeir heldur ekki greitt. Ég hugsa að skynsamir menn í þessum löndum muni sjá að það sé miklu betra að fallast á þessa fyrirvara Íslendinga þannig að Ísland blómstri og nái því að borga hverja einustu evru og hvert einasta pund til baka, ef við verðum ekki fyrir áfalli. Ég hugsa að þeir sjái sitt óvænna og komi til baka.

Ég vil taka undir það að þetta er ánægjulegt frumvarp sem við ræðum hér. Mér er alveg að meinalausu hvort menn kalla þetta einkavæðingu, sölu eða breytingu á eignarhaldi eða hvað. Þetta er hugmynd sem ég stakk upp á strax fyrir ári og nú er hún komin í framkvæmd og ég er virkilega ánægður með það.