138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við fjárlagafrumvarpið og er svo sem af ýmsu að taka varðandi það. Ég ætla aðeins að koma inn á nokkur atriði.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar sem tekið hafa til máls varðandi þetta frumvarp hafa flestir ef ekki allir gagnrýnt þá málsmeðferð sem hefur verið viðhöfð. Ætla ég að taka undir þá gagnrýni.

Frumvarpið sem lagt var fram í upphafi hefur vissulega tekið nokkrum breytingum en meginhluti þess er frekar handahófskenndur, verð ég að segja. Þetta er svolítið hugmyndafræðilegt frumvarp að því leyti að það virðist vera sem vinstri stjórnin ætli að koma inn ákveðinni hugmyndafræði og lætur ekkert stöðva sig í því. Það er athyglisvert ef það er hluti af þeirri hugmyndafræði, sem mér sýnist vera, að ganga mjög hart fram gagnvart landsbyggðinni og þeim niðurskurði og því sem er í þessu frumvarpi.

Bændablaðið kom til okkar nýlega og á forsíðu þess eru tvær fréttir. Önnur er jákvæð og fagna ég því að með góðri og mikilli vinnu hefur tekist að fá það í gegn að rafmagnskostnaður garðyrkjubænda verður leiðréttur að nokkru. Því ber að fagna en betur má ef duga skal. En það er önnur frétt á forsíðu Bændablaðsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Framlög til Lífeyrissjóðs bænda lækkuð um 45% samkvæmt fjárlagafrumvarpi.“

Þar er viðtal við hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann útlistar og reynir að verja þessa ákvörðun. Mér finnast mjög merkileg þau skilaboð sem þessi ríkisstjórn sendir bændum sí og æ. Það er eins það sé eitthvert sérstakt áhugamál hjá ríkisstjórninni að gera undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar eins erfitt fyrir og hægt er, hvort sem það er sjávarútvegur eða landbúnaður.

Ég sagði við 1. umr. um fjárlagafrumvarpið að það frumvarp væri andstyggðarplagg og það er það enn. Það eru enn þá miklir og hættulegir gallar á þessu fjárlagafrumvarpi að mínu viti. Hér er farið af stað með hugmyndafræði sem er nokkuð úthugsuð ef vel er að gáð og það er ljóst að þar eru fingraför kratanna mjög áberandi og eftirgjöf VG um leið. Það er svolítið skrýtið að hugsa til þess að þær forsendur sem virðast hafa verið lagðar til grundvallar séu dregnar upp úr hatti þangað til ásættanlegar forsendur koma upp og nægir þar að nefna það sem komið hefur fram í dag varðandi hækkun landsframleiðslunnar sem liggur nú til grundvallar frumvarpinu. Síðan hefur verið bent á, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði, að það vantar stórupphæðir inn í frumvarpið vegna væntanlegs Icesave-samkomulags, sem ég vona að sjálfsögðu að verði aldrei, og eins vegna tónlistarhúss og ýmissa annarra atriða. Það má því segja að þetta frumvarp sé götótt og stórlega gallað.

Mig langar að nefna á þessum stutta tíma mál sem er mér og fleirum mjög hugleikið og má vel færa fyrir því rök að einhverjir hagsmunir búi þar að baki og er það þá bara allt í lagi. En það er með ólíkindum að sjá hvernig heilbrigðisstofnanir í Norðvesturkjördæmi, og þá sérstaklega heilbrigðisstofnanir á Sauðárkróki og Blönduósi, eru skornar það skarpt niður að það læðist að manni sá grunur að verið sé að reyna að þrýsta þessum stofnunum inn í eitthvert ferli sem íbúarnir sem nota þjónustuna vita ekki af, en er einhvers staðar hulið í skúffum ráðuneytisins. Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki er gert að skerða niður 9% og á Blönduósi um 10,1% en hér hefur verið bent á að á sama tíma stækkar ráðuneytið fjárramma sinn um 8,4%. — Hér blikkuðu ljósin og það er kannski til marks um hvað almættinu finnst um þennan niðurskurð.

Það er alveg óþolandi að stofnunum, sem jafnvel hafa skilað góðum rekstri og hafa sýnt fram á að þær veita afburðaþjónustu, er gert að skera niður með þessum hætti þegar búið er að benda á og sýna fram á að það er ekki rétt gefið. Það er einfaldlega þannig og ég er með bréfaskriftir því til sönnunar. Það er verið að mismuna stofnunum og er það mjög alvarlegt. Það er slæmt að vita til þess að það skuli vera heilbrigðisráðherra Vinstri grænna sem gengur fremst í flokki við að skera niður á þessum stofnunum. Það var býsna hátt hljóðið sem heyrðist úr því horni þegar fyrrum ráðherra vildi sameina stofnanir en nú fer hæstv. heilbrigðisráðherra Vinstri grænna þar fremst í flokki.

Annað sem ég ætla að nefna eru niðurgreiðslur til húshitunar. Það er mjög merkilegt framtak hjá ríkisstjórninni hvernig þar er skorið niður. Síðan má nefna að ferjunni Baldri sem siglir yfir Breiðafjörð og er helsta samgönguæð suðurhluta Vestfjarða, er gert að skera niður 14% meðan Vegagerðin er almennt með 10%. Þá er ég ekki búinn að nefna námskostnað og ýmislegt annað sem má finna í þessu frumvarpi.

Það er eitt sem einkennir þetta frumvarp. Það er stefnuleysið á yfirborðinu sem við sjáum en mig grunar að undir niðri búi markviss og úthugsuð stefna krataflokksins í því hvernig þeir ætla að ná sínu fram. Í frumvarpinu er talað um svokallaða sóknaráætlun sem við fyrstu sýn virðist vera mikil snilld en ég verð að viðurkenna að eftir því sem það er skoðað nánar hef ég miklar efasemdir um það. Ég velti fyrir mér hvort þeir fjármunir sem í hana eru settir séu til að skapa atvinnu í kringum gerð áætlunarinnar frekar en að sett sé fram eitthvert plagg sem gagn er í.

Ég hef ekki minnst á Icesave, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið nema að litlu leyti. Ég þarf ekki að fara yfir skoðun mína á því og þeim tengslum sem þar eru. Það vita allir. Eitt enn vil ég nefna, frú forseti, það er það hringl sem verið hefur hjá ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum varðandi hjúkrunarheimili. Það er með ólíkindum að verða vitni að því að átök innan ríkisstjórnarinnar, stjórnarflokkanna, um það hvar þessi málaflokkur eigi að vera skuli vera komin inn í þingið, þar eru þau mjög áberandi. Þetta er dæmi um að hér er á síðustu dögum fyrir þingið verið að taka slag um hugmyndafræði í staðinn fyrir að vinna málið ofan í kjölinn og ná fram einhverri faglegri og vitrænni niðurstöðu.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, frumvarpið er að mínu viti yfirlýsing frá ríkisstjórninni sérstaklega gagnvart landsbyggðinni og þeim sem þar starfa. Hér hef ég minnst á bændur og á starfsfólk heilbrigðisstofnana sem ég nefndi áðan en ég hef ekkert rætt um sjávarútveginn. Ég vona svo sannarlega að þær hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur uppi varðandi sjávarútveginn nái ekki fram að ganga eins og þær eru. Það er líka óþolandi að vera með nefnd sem á að skoða framtíðarskipulag sjávarútvegsins eða endurskoða stefnuna þegar ríkisstjórnin reynir á sama tíma að koma frumvörpum í gegn hvað eftir annað sem gera ekkert annað en að skapa mikla óvissu í það minnsta, ef ekki að valda tjóni.

Það er hægt að fara endalaust í gegnum frumvarpið en ég ætla ekki að gera það. Ég vil þó nefna það mál sem var áfram á dagskránni varðandi sölu eða ekki sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum máli mínu til stuðnings um flumbruganginn og fljótheitin varðandi þetta frumvarp. Vitanlega er hér komin fram sönnun þess að þarna fóru menn of hratt þegar komið er fram frumvarp og í greinargerð með því segir m.a., með leyfi forseta:

„Í ljósi þess vafa sem upp virðist kominn um þörf á sérstakri lagaheimild vegna umræddra samninga ríkisins er lagt til í frumvarpi þessu að lögfest verði skýr og afdráttarlaus heimild fyrir fjármálaráðherra til að staðfesta breytingar …“

Þetta er gott dæmi um hvernig á ekki að vinna hlutina. Við höfum orðið vitni að þessu hvað eftir annað í haust, frú forseti, hvernig haldið hefur verið á málum og því þarf að breyta.

Hér hefur verið rætt lítillega um framkvæmdir á vegum ríkisins sem eru að sjálfsögðu allt of litlar. Í vegamálum virðist eingöngu vera rætt um stórar framkvæmdir sem verða þá væntanlega einhvers konar einkaframkvæmd, geri ég geri ráð fyrir, í stað þess að horfa t.d. á minni framkvæmdir þar sem 2–3 milljarðar mundu jafnvel skapa fjölda verktaka og hundruðum starfsmanna um leið verkefni um allt land. Ef þessum fjármunum hefði verið deilt til vegagerðarverkefna um allt land hefði það skipt gríðarlega miklu máli.

Frú forseti. Það er líka mikilvægt að horfa til þess að lögreglan á landinu, lögreglan sem þjónar okkur öllum, hefur verið eilítið til umræðu hér á þingi og ég kemst ekki hjá því að minna ríkisstjórnina á að fjármagn til hennar verður að vera nægjanlegt til að hún geti sinnt skyldum sínum. Það er mjög mikilvægt að það komi klárlega og skýrt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að hún standi að baki því heiðursfólki sem starfar í lögreglunni því að það er óþolandi að sitja uppi með að einstakir ráðherrar skuli jafnvel ekki treysta lögreglunni.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinna. En ég ítreka það sem ég sagði áðan, þetta er andstyggðarfjárlagafrumvarp.