138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:28]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fá að nota þetta tækifæri nú vegna ræðu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um heilbrigðisstofnanirnar á Blönduósi og á Sauðárkróki.

Það er ljóst að margt hefur breyst hvað varðar vistunarmat sem tók gildi 1. janúar 2008 og því rúmt ár frá endurskoðun á vistunarmatinu. Samkvæmt vistunarmatinu fara núna miklu þyngri umönnunarsjúklingar inn á heilbrigðisstofnanir og þar er farið eftir ákveðnu mati, þ.e. hjúkrunarþyngdarstuðlum, sem er samræmt og farið eftir um allt land. Þegar þetta er lagt saman, þ.e. hjúkrunarþyngdarstuðlarnir á þessum stofnunum, kemur í ljós að þessum tveimur stofnunum hefur verið ætlað hjúkrunarrými umfram það sem hefur verið í notkun eða talið að sjúklingar uppfylli skilyrði um núna upp á síðkastið. Í þeim fjárlögum sem nú er verið að leggja fram er farið eftir hjúkrunarþyngd og þar með er hjúkrunarrýmum fækkað og að auki lenda þessar stofnanir í niðurskurði eins og aðrar stofnanir, sem sé aðhaldsaðgerðum. Þegar þetta leggst saman hjá stofnunum sem hafa verið fjármagnaðar á þennan hátt er skellurinn auðvitað þungur. Ég tel að fylgjast verði mjög vel með rekstri þessara stofnana, hvernig þær ganga á næsta ári, hvort þær geta fjármagnað sig á þeim greiðslum sem (Forseti hringir.) þeim eru ætlaðar til að standa undir þeirri þjónustu sem lögboðin er.