138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[22:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hefur hæstv. forseti tekið eftir því hvernig sumir þingmenn virðast aldrei geta tekið þátt í almennilegri rökræðu heldur þurfa alltaf að fara niður á lægra plan og snúa út úr? Nú reyndi ég að margítreka í ræðu minni að ég væri ekki að leggja til niðurskurð á þessum stöðum. Þvert á móti væri ég að nefna þetta vegna þess að þetta væru allt atriði sem við mundum ekki vilja skera niður eða leggja af. Ég veit reyndar ekki með mat hv. þingmanns á forsetaembættinu, hann gæti kannski í seinna andsvari tjáð skoðun sína á því. En ástæðan fyrir því að ég nefndi þessa hluti er einmitt að þetta eru hlutir sem eru okkur flestum heilagir og ekki bara það heldur skapa sumir þeirra meiri tekjur, eins og ég nefndi, en útgjöld. En sú skýring virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá hv. þingmanni nema hann hafi viljandi verið að snúa út úr en það hafa stjórnarliðar því miður tamið sér í þessari umræðu.

Stjórnarandstaðan ræddi dögum saman um þetta mál og benti á margt mjög mikilvægt í þessu öllu saman en stjórnarliðar sáu ekki ástæðu til að taka þátt í þeirri umræðu eða reyna að verja þennan gjörning. Þeir voru hins vegar sumir til í að vera með útúrsnúninga og lágkúrulega umræðu á öðrum vettvangi. Til að mynda sitja úti í horni tveir hv. þingmenn sem reyndu að dreifa þeirri sögu að ef þingmenn Framsóknarflokksins væru að gagnrýna forsætisráðherra væri það vegna kvenfyrirlitningar af því að hæstv. forsætisráðherra væri kona. Umræddir þingmenn hafa væntanlega ekki tekið eftir því að ég var ekki síður gagnrýninn á hæstv. fjármálaráðherra, sem þarna situr og glottir með félögum sínum, eða hæstv. viðskiptaráðherra eða hæstv. félagsmálaráðherra og ekki eru þeir konur. Hvernig verður þetta útskýrt? Þetta verður ekki útskýrt vegna þess að þetta fólk á ekki í rökræðum, það fer bara í útúrsnúninga og þvælu.