138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[09:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum atkvæði um lokaafgreiðslu fyrir fjárlög 2010, mikilvæg og erfið fjárlög þar sem tekist hefur að ná þeim settu markmiðum sem lagt var upp með í upphafi árs varðandi aðlögun í ríkisfjármálum. Það hefur okkur tekist án þess að flýja verkefnið með því að leita einhverra ódýrra lausna, þvert á móti höfum við byggt á þeirri blönduðu leið sem boðuð var, leið tekjuöflunar og samdráttar, og með því að breyta forgangsröð.

Helstu breytingarnar í 3. umr. varða það að auka framlög til sveitarfélaganna til að endurgreiða þeim tryggingagjald. Það eru stórhækkuð framlög, horfið frá lækkunum á umönnunarbótum og tryggðar auknar fjárhæðir til menntunar, einkum til Landbúnaðarháskóla Íslands, auk smærri atriða.

Fyrir þessa lokaatkvæðagreiðslu þakka ég öllum þeim sem unnu að fjárlögum fyrir mikla og óeigingjarna vinnu og (Forseti hringir.) lýsi yfir ánægju með það hver útkoman varð.