138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[09:15]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum að fara að greiða atkvæði um fyrsta fjárlagafrumvarpið sem Hreyfingin hefur unnið að. Við teljum ekki að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar í þessu frumvarpi gangi upp. Við teljum of djúpt seilst í vasa almennings og við höfum lagt til að reynt verði að sækja fé til þeirra sem nýta auðlindir þjóðarinnar án þess að greiða tilhlýðilegt verð fyrir þær. Við munum bera upp breytingartillögur þar að lútandi á eftir og vonumst til að þær fái góðan framgang. Við munum í breytingartillögum okkar líka gefa þingheimi tækifæri á að sýna ábyrgð í útgjaldahlið frumvarpsins þar sem ekki er verið að veita fé til einstakra gæluverkefna eða áhugamála þingmanna. Við teljum að það muni einfaldlega sýna almenningi hér úti við að það sé brýnna að forgangsraða og láta fé renna til heilbrigðis- og velferðarmála en t.d. til íþróttamála eða áhugamála þingmanna.