138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[09:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Hreyfingin hefur lagt fram fjölda breytingartillagna er varða svokallaða safnliði. Sá sem hér stendur er ekki mótfallinn því að skoða það að endurskipuleggja með hvaða hætti þessu fé er úthlutað. Sú vinna er m.a. hafin í menntamálanefnd en það fer svolítið fyrir brjóstið á manni sem hér stendur og er utan af landi þegar talað er um hin fjölmörgu verkefni úti á landi. Ég nefni til að mynda Selasetrið, þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal, byggðasöfnin vítt og breitt um landið og svona mætti lengi telja, verkefni sem eru góðra gjalda verð og eiga alveg að njóta stuðnings, rétt eins og stærri söfn á höfuðborgarsvæðinu. Það er alveg hægt að endurskoða þessar úthlutanir en það á ekki að gera í breytingartillögum með þessum hætti. Við eigum að fara faglega í þetta og vera klár fyrir næstu fjárlagagerð með breytingartillögur hvað þetta snertir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)