138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[09:49]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hreyfingin hefur lagt til að ýmiss konar góðir safnliðir, m.a. til verkefna úti á landi, verði felldir niður. Það var sagt í ræðu áðan að t.d. væri óþarfi að styrkja skrímslasetrið vegna þess að skrímsli væru ekki til. Síðan hafa þingmenn Hreyfingarinnar lagt til að styrkur til jólasveinasetursins á Mývatni verði lagður af. Nú er það þannig að jólasveinarnir eru til og við framsóknarmenn erum ósáttir við að setrið sé skorið niður sérstaklega.

Ég vil sérstaklega benda á það að hér falla þingmenn Hreyfingarinnar í þá gryfju að ætla að setja 1,4 millj. kr. í bókmenntahátíð í Reykjavík. Mér finnst ekki alveg samræmi í málflutningi Hreyfingarinnar að meðan það á að skera góð verkefni úti á landi sé í lagi að styrkja verkefni í Reykjavík, sem ég reyndar tel allra góðra gjalda verð. (Forseti hringir.) Við framsóknarmenn munum segja nei við þessum tillögum.