138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er verið að taka skaðann að einhverjum hluta til baka, en þrátt fyrir það eru menn að færa heilbrigðisstofnanir í óskylt ráðuneyti. Ég vek athygli á því að það var ekki ein fagleg umsögn um þennan flutning í öllu þessu ferli. Hv. heilbrigðisnefnd fékk hins vegar gesti sem reyndu að útskýra fyrir meiri hlutanum að um væri að ræða heilbrigðisstofnanir en ekki félagslega þjónustu, reyndu að útskýra það fyrir hv. þingmönnum, sérstaklega Samfylkingarinnar.

Ein rökin, bara til að sýna hversu vitlaust þetta er allt saman, voru að það ætti að færa þetta yfir til að fara með þetta til sveitarfélaganna þó að það tengist ekki neitt. Samt sem áður tekur meiri hlutinn núna samningana við sveitarfélögin og færir þá aftur til heilbrigðisráðuneytisins sem er afskaplega skynsamlegt en sýnir hins vegar hversu arfavitlaus og alvarleg (Forseti hringir.) vinnubrögð þetta eru, virðulegi forseti. Við skulum þó reyna að bjarga því sem bjargað verður og segja já við þessu.