138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:15]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í þessum lið er gerð tillaga um 4 millj. kr. fjárveitingu til sjúkrahússins á Akureyri. Þetta er liður í því að gera læknanemum við Háskóla Íslands kleift að fara í starfsnám á öðrum stað en á höfuðborgarsvæðinu. Það ber að fagna þessari tillögu. Engu að síður hef ég þá athugasemd við hana að það er í rauninni óboðlegt að ganga þurfi frá þessum sjálfsagða þætti með þeim hætti sem hér er gert. Þetta á einfaldlega að vera liður í því námi sem boðið er upp á við Háskóla Íslands því að þetta starfsnám, ef svo má segja, er grunnur að endurnýjun og þekkingu á öðrum sjúkrahúsum en hér um ræðir. Ég sit hjá við afgreiðslu þessarar tillögu hér og nú og treysti því að þetta þurfi ekki að koma til afgreiðslu með þessum hætti framvegis og það verði gerð bragarbót á í fjárlögum ársins 2011.