138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er í sjálfu sér um ágætismál að ræða eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson fór yfir, en ég vek athygli hv. þingmanna á því að þegar kemur að stefnu hæstv. ríkisstjórnar í heilbrigðismálum snýr það beint að þessu sjúkrahúsi, eins og Landspítalanum. Forsvarsmenn spítalans á Akureyri hafa bent á að ef menn halda áfram í þessum flata niðurskurði verða fjárheimildir spítalans 3,5 milljarðar árið 2012. Það þýðir að hann mun ekki geta sinnt hlutverki sínu og við munum sjá stórfellda flutninga á sjúklingum suður yfir heiðar. Vandinn er sá að sama staða er uppi varðandi Landspítalann. Með flötum niðurskurði erum við að vega stórlega að grunnþjónustu hans.

Stefna hæstv. ríkisstjórnar í heilbrigðismálum er þessi: Það virðist vera leitað að þeim stöðum á Norðurlöndunum þar sem eru lengstir biðlistar og minnst þjónusta og reynt að toppa það.