138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:25]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Hér eru þingmenn að fara að veita stórfé til stjórnmálaflokka. Þingmenn Hreyfingarinnar leggja til að framlög til stjórnmálaflokka verði lækkuð um 60%. Hér eru þingmenn að tryggja sér og sínum flokkum áframhaldandi völd með slíkum fjárveitingum og við teljum þær algjörlega úr hófi hvað upphæðir varðar enda eru stjórnmálaflokkar frjáls félagasamtök sem eiga ekki að vera á framfæri skattgreiðenda. Hreyfingin gerir sér hins vegar grein fyrir mikilvægi stjórnmálasamtaka og við leggjum til að í framtíðinni fái þau fé sem nægir til reksturs á skrifstofu og fundaraðstöðu af hóflegri stærð og til greiðslu launa fyrir framkvæmdastjóra og einn starfsmann að auki. Í framhaldinu er lagt til að framlaginu verði skipt jafnt milli stjórnmálaflokkanna því að léttvæg rök eru fyrir því að greiða þeim sem flesta þingmenn hafa hærri styrk en þeim sem hafa fáa þingmenn.