138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:29]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Vissulega ber að fagna þeirri viðleitni í rétta átt sem sýnd er með þessu 1.200 millj. kr. framlagi til sveitarfélaganna sem ætlað var að ganga upp í efndir á loforðum forustumanna ríkisstjórnar gagnvart sveitarfélögunum þegar tryggingagjaldð var hækkað nú hið síðara sinn. Eftir standa hins vegar stórar fjárhæðir sem eftir er að ljúka samningum á milli sveitarfélaga og ríkisins hvað varðar húsaleigubætur, tryggingagjaldið og efndir loforða þar að lútandi frá því í sumar ásamt ýmsum öðrum atriðum sem snerta m.a. breytingar sem gerðar voru á atvinnuleysistryggingalögunum. Allir þessir þættir eru í uppnámi. Vegvísirinn sem frágenginn var í október er í uppnámi. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ályktað sérstaklega hart gegn því. Ég vænti þess að menn taki upp þessi samskipti þegar (Forseti hringir.) líður á næsta ár og sit hjá við afgreiðslu þessa liðar.