138. löggjafarþing — 59. fundur,  22. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[10:47]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hér er mjög óljós texti og er fullkomin ástæða til að gera grein fyrir honum. Það sem hér er lagt til er að felldar verði brott heimildargreinar úr 6. gr. fjárlaga sem lúta að því að kaupa eða leigja viðbótarhúsnæði fyrir starfsemi ríkisstofnana. Í þeim efnum er tilgreint húsnæði fyrir aðalskrifstofur ráðuneyta, Vinnumálastofnun og Þjóðleikhús, Listasafn Íslands o.s.frv. Sú breyting hefur orðið á að sú misritun er í texta þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir Alþingi að það er tilgreindur liður 6.12 sem var í rauninni felldur út við 2. umr. Ég dreg þann lið til baka. Þar var gert ráð fyrir kaupum á húsnæði fyrir Umferðarstofu og meiri hlutinn var búinn að samþykkja að falla frá því og þess vegna eru aðrir þættir tillögunnar endurfluttir sem lúta að því að auka við húsnæði ríkisstofnana á þeim tímum sem nú eru uppi.