138. löggjafarþing — 60. fundur,  22. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[11:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekkert eðlilegt í þessu sambandi. Það er ekkert eðlilegt að menn geri samninga við stórfyrirtæki, álfyrirtæki, til margra ára um að þau borgi skattinn sinn fyrir fram til ríkisins. (Gripið fram í.) Það er ekki eðlilegt. Ég trúi því einhvern veginn ekki að þau geri þetta af samfélagslegri ábyrgð gagnvart íslenskri þjóð. Ef það skyldi koma fyrir að þau yrðu gjaldþrota — það vill svo til að Lehman Brothers urðu líka gjaldþrota mörgum að óvörum og slíkt gerist. Það er verið að taka lán með veði í skatttekjum framtíðarinnar og það er mjög undarleg ráðstöfun. Þetta frumvarp er þannig og ég sagði lengi vel að það væri best að það hefði aldrei komið fram. Ég ber enn þá von í brjósti að þetta frumvarp hafi í raun aldrei komið fram, verði afturkallað og ekki á borðum þingmanna. Það er svo undarlegt og það er svo skrýtið. Er þetta skattlagning? Nei. (VigH: Lán.) Þetta er nefnilega lán. En það er ekki kallað lán. Ég veit ekki hvernig menn ætla að færa þetta í bókhaldinu hjá ríkinu. Ætla þeir að færa þetta sem tekjur? Það getur varla verið ef þetta er lán þannig að ég skil ekki af hverju menn eru að þessu núna, þeir hefðu alveg getað sleppt þessu. Ríkissjóður hefði getað tekið lán með venjulegum hætti úti á markaði eins og hann gerir alla daga. (Gripið fram í: Eða skera niður …) (JRG: Þetta er vaxtalaust.)