138. löggjafarþing — 60. fundur,  22. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[12:00]
Horfa

Frsm. minni hluta iðnn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Við í iðnaðarnefnd höfum unnið hratt og vel í þessu máli, það er oft ekki mikill fyrirvari í þinginu. Nefndarálit okkar byggir á því að við fengum inn í nefndina umsögn frá fjárlaganefnd um þetta frumvarp. Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar skilaði þar ágætisáliti og okkar álit vísar í það. Í okkar áliti segir að minni hlutinn leggist gegn samþykkt frumvarpsins og við vísum til álits minni hluta fjárlaganefndar um frumvarpið. Undir þetta álit iðnaðarnefndar skrifa sú sem hér stendur og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, Tryggvi Þór — frú forseti, það er villa í skjalinu sem við þurfum að laga, en á fundinum sátu Birgir Ármannsson fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Margrét Tryggvadóttir.

Helstu athugasemdirnar sem við höfum við þetta eru, eins og hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á, að þetta er frekar furðuleg lagasetning. Það kemur fram í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar að þessi aðferð er ekki í samræmi við gildandi reikningsskilastaðla þannig að í rauninni er hér um hálfgerðan blekkingaleik að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er verið að taka lán hjá þessum fyrirtækjum og það er ekki kallað lán heldur fyrirframinnheimta skatta og þetta er tekjufært í bókhaldi ríkisins. Þær færslur eru ekki í samræmi við gildandi reikningsskilastaðla.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd lögðu til að aðeins meira yrði skorið niður og buðu upp á samstarf í þá veru. Þá hefði verið hægur leikur að fara í það frekar en fara þessa skrýtnu leið en samkvæmt áliti fjármálaráðuneytisins á þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs muni aukast um 1.200 millj. kr. á ári þessi þrjú ár sem þetta á að taka til. Jafnframt kemur hér fram að þó að heimilað verði að innheimta umrædda skatta fyrir fram verður ekki unnt að tekjufæra þá nema lagabreyting komi til og fyrir fram innheimtur skattur sem þessi er ekkert annað en lánveiting sem færist á efnahagsreikning en ekki rekstrarreikning. Fyrirframgreiðsla skatta getur bætt greiðslustöðu ríkissjóðs til skamms tíma en ekki stöðu samkvæmt rekstrargrunni og það er óeðlilegt að skattar séu innheimtir fyrir fram með þessum hætti.

Auk þess telur 1. minni hluti fjárlaganefndar í áliti sínu ekki við hæfi að ríkissjóður gangi á undan með slæmu fordæmi og brjóti bókhaldslög enda þótt lagaheimild sé veitt í íslenskum lögum til þessarar innheimtu. Innleiðing á regluverki Evrópusambandsins felur í sér aðlögun íslenskra laga og þá er líklega ekki heimilt að setja slík lög vegna alþjóðlegra skuldbindinga, auk þess sem þau ganga gegn alþjóðlegum stöðlum um reikningshald og uppgjör.

Nú geta þeir spurt sig sem vilja ganga í Evrópusambandið: Hvað ætli Evrópusambandið mundi segja við þessari framkvæmd? Þetta er stórfurðulegt, öll framkvæmdin er stórfurðuleg og það er með hreinum ólíkindum að það sé farið í þennan blekkingaleik af hálfu ríkisstjórnarinnar á þennan hátt. (Gripið fram í.)