138. löggjafarþing — 60. fundur,  22. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[12:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Frú forseti. Hérna er ein furðulegasta lagasetning þessara tíma þótt segja megi að ýmislegt furðulegt hafi farið í gegnum þingið á undanförnum dögum. Ég mun segja nei og segi nei við þessu frumvarpi.

Hér er um blekkingaleik að ræða þar sem reynt er að fóðra það að lán séu skatttekjur. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson vísaði í það að ríkisstjórnin hefði ætlað að hækka skattana á stóriðjuna en það hefði ekki verið hægt út af samningum. Með þeirri yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf með upphaflegu fjárlögunum um að það ætti að bæta sköttum á þessi fyrirtæki þrátt fyrir gerða samninga sendi ríkisstjórnin þau skilaboð að hún ætlaði ekki að standa við gerða samninga. Það þýðir ekkert að fara í grafgötur með það, þannig var það. Í staðinn fyrir að viðurkenna þá staðreynd að það var ekki hægt að fara þá leið vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir treystu sér ekki þegar á reyndi til að svíkja alla samninga sem gerðir hafa verið hér á landi er farin þessi leið í staðinn fyrir að segja: Við gerðum mistök, þetta er ekki hægt.

Þetta er eintómur blekkingaleikur og við segjum nei.