138. löggjafarþing — 60. fundur,  22. des. 2009.

eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf.

336. mál
[12:17]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mér er kunnugt um að það liggur á með þinghaldið og því mun ég ekki vera langorður um þetta mál. Ég tel hins vegar brýnt að það komi fram að hér er verið að einkavæða banka sem eru í eigu ríkisins, það er verið að gera það án tilhlýðilegrar umræðu sem þarf að fara fram um þetta mál. (Gripið fram í.) Það er ekki vitað hverjir nýju eigendurnir eru og það eru ekki settar neinar skorður við því hverjir verða hugsanlega eigendurnir. Menn reka hér upp stór augu og segja: Á að fara að flokka fólk, má ekki hver sem er eiga banka á Íslandi? Svarið er einfaldlega: Nei. Það kerfi sem við búum við í dag á Íslandi er kapítalismi og þó að núverandi stjórnvöld séu að vísu að reyna að gera eitthvað til að damla á móti því með t.d. þrepaskiptingu tekjuskatts búum við einfaldlega við kapítalisma og kapítalismi flokkar fólk á öllum sviðum, annars gæti hann ekki þrifist. Það er lífsblóð kapítalisma að flokka fólk og þess vegna er það ekkert síður á valdi ríkisstjórnarinnar að flokka það hverjir kapítalistarnir eru, að ég tali nú ekki um þeir sem eiga að eiga bankana á Íslandi eftir allt sem á undan er gengið.

Það er dapurlegt að þetta mál skuli ekki vera afgreitt með betri hætti en verið er að gera. Hér eru ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir, Samfylking og Vinstri græn, á vondri vegferð. Það er verið að einkavæða banka til einhverra sem enginn veit hverjir eru. Það eru engar skorður settar við framtíðareignarhaldi á þeim. Það er verið að fá lánaða peninga í ríkissjóð frá stóriðjufyrirtækjum, eitt þeirra heitir nú Rio Tinto en hét áður til margra áratuga Rio Tinto Zinc og var eitt alræmdasta fyrirtæki á sínu sviði. Það er stórkostlega varasamt að eiga í samskiptum við slík fyrirtæki. Það fyrirtæki er hér í dag og við höfum átt góð samskipti við það, en það ber að setja girðingar við frekari og nánari samskiptum við þessi fyrirtæki að sjálfsögðu. (VigH: Heyr, heyr.)

Þriðja atriðið er gagnaverið margumtalaða uppi á Keflavíkurflugvelli þar sem enn einu sinni er verið að leggjast í duftið fyrir fjárglæframönnum, mönnum sem hafa sett hér allt á hliðina. Það virðist engu tali taka hvað menn eru tilbúnir til að ganga langt til að þiggja peninga, það er bara ömurlegt. (VigH: Rétt.) (Gripið fram í: Nákvæmlega rétt.)