138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það var gert samkomulag milli forustumanna stjórnmálaflokkanna við forseta þingsins um málsmeðferð þar sem kom fram að það væri vilji ríkisstjórnarflokkanna að klára þetta mál milli jóla og nýárs. Einhvers konar samkomulag milli þingflokksformanna um það klukkan hvað fundir yrðu haldnir o.s.frv. var ekki gert og ég tel einsýnt að forseti verði að bera það upp núna vegna þeirrar umræðu sem hér hefur orðið hvort kvöldfundur eigi að vera eða ekki. Það er hin eðlilega málsmeðferð og óþarfi að stefna þinghaldi í eitthvert rifrildi milli stjórnar og stjórnarandstöðu um fundarsköp. Við skulum ganga rétt frá þessu þannig að við getum haldið áfram að ræða hið mikilvæga mál sem fyrir Alþingi Íslendinga liggur.