138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:46]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það fer ekki mikið fyrir jólaandanum í upphafi þingfundar milli jóla og nýárs. Sá sem hér stendur tók þátt í því, m.a. ásamt hæstv. utanríkisráðherra, að ræða um það hvernig við mundum haga þinghaldi á milli jóla og nýárs. Mér misbýður virkilega að mæta til þings vitandi það nú að frú forseti hefur ekki boðað til fundar með þingflokksformönnum allra stjórnmálaflokka á Alþingi og við förum inn í þessa umræðu í algerri óvissu. Hvers lags vinnubrögð eru það á Alþingi að menn skuli mæta með þessum hætti til þings á milli jóla og nýárs? Klukkan er hálftvö og ég held að hæstv. utanríkisráðherra ætti að geta verið mér sammála um að það hefði verið lag í morgun að funda með formönnum þingflokka á Alþingi til að ræða með hvaða hætti við ætlum að haga þinghaldi á milli jóla og nýárs. Þessi vinnubrögð eru gjörsamlega óásættanleg og virðast ekki fara batnandi, frú forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)