138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Varðandi orð hæstv. utanríkisráðherra áðan er rétt að það kom fram að meiri hlutinn hugðist taka málið út úr nefnd þegar honum sýndist svo, en það er hins vegar rangt hjá hæstv. ráðherra að ekki hafi komið nein andsvör eða mótmæli við því. Það kom alveg skýrt fram að það væri algjörlega á ábyrgð meiri hlutans ef það yrði gert. Það er á ábyrgð meiri hlutans að þetta mál var tekið út úr nefnd með þeim hætti sem var gert og við skulum algjörlega halda því til haga.

Frú forseti. Mig langar að biðja forseta að sjá til þess að hæstv. forsætisráðherra verði viðstödd 3. umr. um þetta stóra mál. Ef ekki, væri ágætt að fá upplýst af hverju forsætisráðherra verður ekki hér. Það er með ólíkindum að hér verði lokið þessu risastóra máli með 3. umr. ef hæstv. forsætisráðherra ætlar ekki að vera á staðnum.