138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:48]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er útilokað að fara af stað í þessari umræðu milli jóla og nýárs við þær aðstæður sem hafa skapast í þinginu strax á fyrstu mínútu þess. Það er alveg með ólíkindum að við skulum reyna að kalla yfir okkur það vandamál sem við erum að fara hér af stað með. Hver segir, virðulegi forseti, að það þurfi að vera kvöldfundur út af þessum málum? Hefur eitthvað reynt á það í samkomulagi við forustumenn stjórnarandstöðunnar að hér þurfi að halda kvöldfundi á milli jóla og nýárs? Er eitthvað sem segir að við getum ekki lokið hefðbundnum þingstörfum og umræðum um þetta mál á venjulegum fundartíma?

Ég held að það sé algjör lágmarkskrafa, virðulegi forseti, að fundi sé frestað í stuttan tíma, að forseti eigi fund með forustumönnum stjórnmálaflokkanna og fari yfir það hvernig við ætlum að klára þetta mál, fari yfir það hvernig við ætlum að haga störfum milli jóla og nýárs. Ég held að það sé algjör lágmarkskrafa okkar þingmanna að ekki sé boðað til kvöldfunda þar sem við erum upptekin og starfsfólki þingsins er haldið uppteknu, sérstaklega ef litið er til þess (Forseti hringir.) hvernig vinnubrögð hafa verið á undanförnum vikum og mánuðum.