138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það sem hér er að gerast er nákvæmlega það sem boðað var og hefur legið fyrir frá því fyrir 20. desember. Það er eitt mál á dagskrá þessa fundar og það hefur legið fyrir að 3. umr. um það mundi hefjast snemma þessa dags. Í 2. tölulið hins undirritaða samkomulags segir, með leyfi forseta:

„Samkomulag er um tilhögun þeirrar vinnu sem eftir er við Icesave-frumvarp í nefndum. Meiri hlutinn hyggst afgreiða málið úr nefnd og dreifa nefndaráliti áður en þingfundi lýkur fyrir jól. Þetta er gert til þess að umræða geti hafist án þess að afbrigða þurfi við.“

Enn fremur segir:

„Þriðja umræða hefst mánudaginn 28. desember kl. 10.30.“

Frá þessu hefur nú verið vikið til að gefa meira svigrúm til að skila nefndarálitum. Að lokum stendur:

„Meiri hlutinn stefnir að afgreiðslu málsins 29. eða í síðasta lagi 30. desember.“

Undir þetta rituðu forustumenn allra stjórnmálaflokka fyrir 20. desember sl. þannig að það hefur legið nákvæmlega fyrir síðan að það sem mundi gerast á þessum degi væri að fundur hæfist með þessari dagskrá. Það eina sem þarf að útkljá þá hér (Forseti hringir.) er hvort menn ætla að leggjast gegn því að hér verði fundað (Forseti hringir.) lengur en til kl. 8 að kvöldi sem væri undarlegt í ljósi verkefnisins sem fram undan er.