138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að þessi umræða um þetta stóra og mikilvæga mál, eitt stærsta mál Íslandssögunnar, komi til með að vera á málefnalegum nótum og ég vonast til að hv. þm. Guðbjartur Hannesson svari spurningum mínum og að við eigum hérna ágætisandsvör.

Við meðferð málsins í fjárlaganefnd upplýstist endanlega með því minnisblaði sem fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar lagði fram um feril málsins að málatilbúnaður af hálfu ríkisstjórnarflokkanna nú er byggður á algjörum misskilningi þar sem hann byggir á því að hið „illræmda minnisblað“, svo vitnað sé til orða hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar, sem undirritað var með Hollendingum, hafi valdið því að við urðum að gera samningana með þessum hætti. Nú er upplýst að það var alls ekki svo, heldur voru það Brussel-viðmiðin sem núllstilltu málið. Á því átti að byggja. Hvernig var fjallað um þessa staðreynd í fjárlaganefnd og milli 2. og 3. umr.? Hvar sér þess stað (Forseti hringir.) að það sé viðurkennt að þetta mál byggi allt á misskilningi?