138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. formanni fjárlaganefndar framsögu hans með málinu þó að ég sé ekki í ýkja mörgum atriðum sammála nálgun hans að þeirri niðurstöðu sem hann leggur til fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar. Þvert á móti er ég algjörlega andvígur flestu af því sem þar er farið með. Við eigum engu að síður að geta rætt þetta með skynsamlegum og þokkalegum hætti. Hv. formaður fjárlaganefndar nefndi hér áðan að mikið magn upplýsinga hefði borist. Ég óskaði eftir því á fundi fjárlaganefndar 22. desember að fá tiltekin gögn sem vísað var til til undirbúnings í samninganefndinni og á fundi utanríkisráðherra Íslands og Bretlands í mars. Mér var heitið því að fá þau gögn núna milli jóla og nýárs og ég treysti því að þau berist mér í dag. Ég hefði gjarnan viljað hafa þau við höndina við þessa umræðu. Ég veit að þau eru til. Þau hafa ekki komið fram og það er grundvallaratriði fyrir þingið (Forseti hringir.) að fá þessi gögn í hendur.