138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú höfum við þingmenn sem hér höfum starfað frá því í vor öll upplifað það að í þessu máli höfum við þurft að draga fram öll gögn nánast með töngum og alltaf er eitthvað nýtt að koma upp á yfirborðið. Þar sem hv. formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, komst ekki að í andsvörum tel ég rétt að beina einni fyrirspurn til hv. þingmanns: Hvert ætlum við að stefna héðan í frá?

Nú er málið komið í hnút vegna þessa misskilnings ríkisstjórnarinnar og forsendubrests þeirra ákvarðana sem ríkisstjórnin hefur tekið. Stjórnarliðar hafa gagnrýnt okkur í stjórnarandstöðunni fyrir að hafa engar hugmyndir og engar tillögur um það hvert eigi að fara í þessu máli. Stjórnarliðar halda því fram að við höldum virkilega að þetta mál hverfi ef við á Alþingi höfum kjark til að vísa því frá og höfum dug í okkur til að viðurkenna að ríkisstjórnin tók ákvarðanir á röngum forsendum. Hvað leggur hv. þingmaður til að við gerum ef Alþingi tekur þá ákvörðun (Forseti hringir.) að vísa þessu máli frá?