138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. „Framsóknarflokkurinn hefur frá upphafi haft uppi hörð mótmæli gegn því að Íslendingar taki á sig Icesave-skuldbindingarnar. Barist hefur verið fyrir því frá upphafi málsins að öll gögn væru lögð fram, allar upplýsingar væru uppi á borðinu og að skýr og hlutlaus mynd yrði dregin upp af þeim atriðum sem lúta að Icesave-nauðasamningunum. Því miður hefur hörð andstaða þingmanna Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við það að upplýsa málið gert það að verkum að baráttan hefur verið löng og strembin.“

Þetta eru upphafsorð nefndarálits sem 2. minni hluta var gert að vinna yfir jólahátíðina. Þess ber að geta að málið var tekið út úr fjárlaganefnd áður en mjög mikilvægt álit barst frá IFS Greiningu ehf. seint á Þorláksmessukvöld.

Ég held að mjög brýnt sé að fara ítarlega yfir þetta álit vegna þess að þær tölulegu upplýsingar um áhættuna sem Íslendingar eru að taka að sér eru þannig vaxnar að í rauninni ætti enginn þingmaður að láta það ógert að fara ítarlega yfir allt það sem þar stendur.

IFS Greining bendir á að ekkert land í heiminum hafi komið jafnilla út úr bankakreppu, metið út frá aukningu skulda ríkissjóðs. Þessi yfirlýsing ein og sér gerir það þess virði að fara gaumgæfilega yfir álitið. Þeir benda líka á að bankahrunið sé hið mesta í veraldarsögunni, metið út frá stærð bankakerfisins fyrir hrun í samanburði við landsframleiðslu. Þetta er meginástæða þess að stjórnarandstaðan og Framsóknarflokkurinn hefur frá upphafi málsins lagst hart gegn því að Icesave-skuldbindingarnar yrðu samþykktar og þeim varpað yfir á komandi kynslóðir og skattgreiðendur þessa lands. IFS bendir á að mikil óvissa ríki um skuldastöðu þjóðarinnar og íslenska ríkisins. Samkvæmt síðustu opinberu tölum frá Seðlabanka Íslands námu hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins 36% af vergri landsframleiðslu. Nú telja starfsmenn Seðlabankans að vergar erlendar skuldir muni nema 320% og að hreinar erlendar skuldir muni nema 91% af vergri landsframleiðslu í lok ársins 2010. Bara það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tilgreindi að ef hlutfallið færi yfir 240% mætti líta á að þjóðin væri gjaldþrota ætti nú að leiða til þess að þingmenn stjórnarmeirihlutans renni a.m.k. yfir álitið og gefi því þann gaum sem það á skilið.

Eins og áður hefur verið bent á er mikil óvissa um skuldastöðu þjóðarinnar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn benti í fyrstu endurskoðun áætlunarinnar á að mikil óvissa ríkti um hreinar skuldir þjóðarbúsins. Tekur hann fram að óvissan gæti bæði leitt til hækkunar og lækkunar. Síðan kemur athyglisverð setning: Því miður virðist óvissa um skuldastöðu þjóðarinnar oftar hafa leitt til endurmats vegna vanmats á skuldum og ofmats á eignum frekar en til hins gagnstæða. Þetta er einfaldlega sá veruleiki sem við hv. þingmenn í fjárlaganefnd höfum búið við. Við sendum Seðlabankann þrisvar sinnum heim til þess að koma með upplýsingar um stöðu þjóðarbúsins. Það var Seðlabankanum ofviða um mitt sumar. Það er þó jákvætt að þessar upplýsingar liggja nú fyrir, en þær ættu líka að vekja einhverja þingmenn úr dvalanum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur birt töflu með lista af löndum og hreinni erlendri skuldastöðu þeirra. Má í rauninni segja að þetta sé hinn svokallaði „svarti listi“ sem engin þjóð vill vera á. Þar kemur fram að einungis Portúgalar og Ungverjar hafa verri hreinar skuldir en Ísland, hlutfallið er verra. IFS Greining bendir á og segir, með leyfi forseta:

„Það verður að teljast nokkuð athyglisvert að sérfræðingar Seðlabankans vísi í þennan lista sem rökstuðning fyrir því að ekki þurfi að hafa áhyggjur af hreinum erlendum skuldum íslensku þjóðarinnar. Okkur finnst listinn benda til hins gagnstæða. Þar má finna Grikkland sem hefur mjög lítið lánstraust en minni hreinar erlendar skuldir en Ísland.“

Þetta er einmitt það sem stjórnarliðar hafa bent á, að lánstraustið muni aukast. Þrátt fyrir að Grikkland hafi þessa slæmu útkomu og mjög lítið lánstraust og minni hreinar erlendar skuldir en Íslendingar benda þeir á að efnahagsástandið í Lettlandi sé mjög slæmt, eins og hefur ekki farið fram hjá neinum og komið fram ítarlega í fréttum að undanförnu, en skuldastaðan er betri en Íslands. Ungverjar hafa þurft að fá mikla aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu. Lánshæfismat Portúgals hefur farið lækkandi.

Síðan kemur það sem máli skiptir, á heildina litið er staða Íslands á þessum lista ekki til að auka traustið á stöðu Íslands. Þetta er eitt af því sem stjórnarliðar hafa ákveðið að líta algjörlega fram hjá. Sumir þeirra hafa m.a.s. leyft sér í ræðustól að tala um ábyrgð í þeim efnum. Hefði ekki verið meiri ábyrgð að skoða þau álit og þær hættur sem færustu sérfræðingar benda á? Nei, málið skal rifið út úr fjárlaganefnd án efnislegrar umfjöllunar. Það er það sem við höfum þurft að búa við.

Eins og hér kemur fram ætti ofangreindur listi að gefa tilefni til áhyggna af skuldastöðu þjóðarinnar. Síðan kemur einnig það sem máli skiptir, varfærið mat á óvissuþáttum gefur mat á líkum á verulegum greiðsluerfiðleikum, m.a. greiðslufalli. Það eru 10% líkur á að þetta muni gerast. En hvað hafa þingmenn stjórnarmeirihlutans gert? Þeir koma fram og segja: Þetta eru bara nokkuð góðar líkur, (Gripið fram í: Assgoti gott.) bara assgoti gott. Það eru 90% líkur á að við stöndum þetta af okkur.

Þetta er einhver versta útkoma sem einstök þjóð hefur horft upp á. Hún er verri en gengur og gerist úti um allan heim. (Gripið fram í: Verra …) Ættu þingmenn ekki frekar að vona það besta en búast við hinu versta? (ÞSa: Með fyrirvörum.) Með fyrirvörum, eins og hv. þm. Þór Saari grípur hér fram í.

Jafnvel þó að IFS Greining segi að varfærið mat sé á 10% líkum á greiðslufalli er hér einnig mat frá fyrirtækinu CMA sem metur líkurnar 25%. (Gripið fram í.) Ætli það geti vakið ríkisstjórnina af dvalanum? Nei, því miður, þetta er algerlega hunsað, álitið alls ekki rætt.

Hæstv. fjármálaráðherra sendi bréf til flokksmanna sinna um daginn, segist hafa tekið við af búskussum. Maður getur velt fyrir sér að ef hæstv. fjármálaráðherra ræki hænsnabú væru þessar líkur jafnvel óviðunandi. Ég held að það liggi alveg fyrir öllum þeim sem hafa einhvern tímann staðið í rekstri. Hæstv. fjármálaráðherra er hins vegar með eitt stykki þjóðarbú undir, ekki hænsnabú, og hann metur þetta bara allt í nokkuð góðu lagi. Hver skyldi vera búskussinn? Og hann bætir gott um betur í þessu magnaði bréfi til stuðningsmanna sinna í Vinstri grænum (Gripið fram í.) og talar um að hann sé að taka við þessu slæma búi, líkir því við rústabjörgun eftir landskjálfta eða björgun á strandstað. Þarna vísar hann væntanlega til þess að hann hefur allan tímann í umræðunni kennt síðustu ríkisstjórn um að við stöndum frammi fyrir því að ríkisstjórnin ætlar að samþykkja Icesave. Það var síðasta ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sem gerði öll mistökin og hann er einfaldlega að greiða úr þeim vanda sem síðasta ríkisstjórn skildi eftir sig.

En hvað gerist? Jú, fyrrverandi forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, vísar þessu alfarið á bug. (Gripið fram í: Hvenær var hún forsætisráðherra?) Utanríkisráðherra, svo ég leiðrétti mig. Hún vísar þessum röksemdum öllum á bug og segir: Þegar Brussel-viðmiðin voru sett og það var ákveðið á Alþingi að ganga til viðræðna við Breta og Hollendinga á grundvelli þeirra samninga voru samningaviðræðurnar núllstilltar. Og hinn svokallaði samningur sem var gerður við Hollendinga, en stjórnarliðar segja reyndar að eigi líka við um Breta þegar það hentar í málflutningnum, var núllstilltur. Þeim samningi var algjörlega ýtt út af borðinu. (Gripið fram í: Ekki segir …) Allur rökstuðningur hæstv. fjármálaráðherra er farinn, fokinn út í veður og vind.

Hvað situr eftir? Hin nöturlega staðreynd að öll ábyrgð á gerð Icesave-samninganna er á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, reyndar með örfáum undantekningum sem ég vona svo sannarlega að gæti hagsmuna þjóðarinnar og komandi kynslóða frekar en lífs ríkisstjórnarinnar. Því er stillt upp í fjölmiðlum að líf ríkisstjórnarinnar falli hugsanlega ef Icesave-málið verður ekki samþykkt. Það er reyndar bara einn aðili á þingi sem hefur leyft sér að koma með svona innihaldslausar ómálefnalegar hótanir. Það er hæstv. forsætisráðherra.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur ítrekað bent á að þetta mál hefði átt að leysast í samvinnu allra flokka og vera hafið yfir flokksræði og tilburði til að hafa menn í einhvers konar liði. Það tekst ekki og á því ber enginn annar ábyrgð en núverandi hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir.

Hvað skyldi núverandi ríkisstjórn vera að leggja á þjóðina? Því var stillt upp í fjölmiðlum að fjárlagahallinn hefði aldrei nokkurn tímann verið jafnmikill og nú um mundir, um 100 milljarðar kr. Fyrir utan litla skyssu, smáatriði sem vantar í reikningsdæmið. Hvað skyldi það vera? Vextirnir af Icesave! Hverjir eru vextirnir af Icesave á einu ári? 40–45 milljarðar kr. Þá vantar þannig að í rauninni má segja að hallinn sé kominn upp í 145 milljarða kr. ef öllu skyldi vera haldið til haga, en það hentar ekki málflutningi meiri hlutans. Þess vegna er það dregið til baka. Nota bene, ríkisstjórnin ákvað að greiða vexti frá 1. janúar sl. jafnvel þótt greiðsluskyldan ætti ekki að hefjast fyrr en 23. október sl. Þar fuku út í veður og vind einir 35 milljarðar íslenskra króna. Það að ríkisstjórnin taki vasapeninginn af öldruðum, 35 milljarðana, er bara smáatriði. (Gripið fram í: Klink.) Það er bara klink. Það eru bara vextir af Icesave í sjö klukkustundir. Þær tikka núna á meðan þessi umræða fer fram. Og ríkisstjórnin er að hækka skattbyrði á alla landsmenn, fólk og fyrirtæki, til að næla sér í tekjur upp á 51 milljarð kr. Hverjir skyldu þurfa að borga fyrir þetta? Tekjuskattur 80.000 einstaklinga fer á næstu sjö árum í að borga vexti af Icesave. Það er sorgleg staðreynd, virðulegi forseti.

Þessu var ekki haldið til haga í ræðu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar þegar hann fór yfir rök fyrir því að Íslendingar ættu að borga þessar skuldir, jafnvel þó að ekkert bendi til þess að komandi kynslóðir eigi að taka á sig misbresti í reglugerðarverki Evrópusambandsins, ekki nokkur skapaður hlutur.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði á sínum tíma að um leið og skuldahlutfallið væri komið yfir þessi 240% væri íslenska ríkið komið ansi nálægt greiðsluþroti, það væri viðmiðið. Jú, það var samið um að setja inn þá fyrirvara að ef staðan væri svo slæm mundi Icesave-skuldbindingin falla um sjálfa sig. Það var samið um það. Af einhverjum ótilgreindum ástæðum sem ég get ekki farið yfir hér, ég skil þær ekki, ákváðu þingmenn Samfylkingarinnar að það væri nægilegt að hafa þetta í áliti meiri hlutans þegar lögin nr. 96/2009 voru samþykkt. Þeir sögðu að það skipti bara engu máli, það væri jafnsterkt og að hafa það í lögunum sjálfum. Nú er skuldahlutfallið samkvæmt Seðlabankanum um 320%. (Félmrh.: Hvað … skuldar …?) Hér grípur hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fram í. Ég skora á hann að koma í pontu Alþingis og fjalla efnislega um þetta mál vegna þess að hið eina skipti sem hann gerði það, í byrjun júnímánaðar, hélt hann því fram fullum fetum að einstakir starfsmenn ráðuneytanna gætu skuldbundið Íslendinga með Icesave-samningunum, þetta lægi allt saman fyrir. Er hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra enn þá þessarar skoðunar? Ég man ekki betur en að hann hafi slegið um sig með því að vísa í meginreglur laga, þannig væri þetta bara. Meginreglur þjóðaréttarins segðu til um að svona væri þetta. Einhver starfsmaður í utanríkisráðuneytinu getur bara skuldbundið íslensku þjóðina um 730 milljarða kr., skuldbundið komandi kynslóðir. Auðvitað er þetta ekki svona. Þess vegna stöndum við hér í dag og höfum staðið síðustu mánuði við að fara yfir þetta dæmalausa mál.

Ég hef ekki lokið yfirferð minni yfir álit IFS Greiningar. Þeir benda enn á ný á hræðilegar staðreyndir Icesave-málsins, að kröfur innstæðutryggingarsjóðs hafi verið settar fram í íslenskum krónum miðað við gengi krónunnar þann 22. apríl. Í því felst sem sagt að innstæðutryggingarsjóður fær að hámarki 674 milljarða kr. óháð gengisþróun íslensku krónunnar. Skuldir ríkisins vegna Icesave eru hins vegar í pundum og evrum og það er grafalvarlegt vegna þess að þann 18. desember stóðu lán vegna Icesave-samninganna í 768,3 milljörðum kr. Gjaldeyrisáhætta íslenska ríkisins hefur þess vegna aukist með því að festa hámarksinnheimtur úr þrotabúi Landsbankans í íslenskum krónum. Á meðan ekki næst að greiða allar forgangskröfur ætti veiking krónunnar að hafa þau áhrif að hærra hlutfall af kröfum innstæðutryggingarsjóðsins fæst greitt. Þegar innheimtur ná 100% leiðir frekari veiking krónunnar til þess að lán vegna Icesave hækka en eignirnar ekki. Svo benda þeir á nöturlega staðreynd og má kannski rifja það upp í ljósi þess sem ég fór yfir áðan, að þingmenn meiri hlutans sögðu sumir hverjir í byrjun júnímánaðar að við ættum einfaldlega að samþykkja Icesave-samningana óséða, annað væri bara vitleysa, þetta væru fínir samningar, og hæstv. fjármálaráðherra sagði þetta væri glæsileg niðurstaða.

IFS bendir á að þessi gjaldeyrisáhætta virðist ekki hafa orðið mönnum ljós fyrr en nú á haustmánuðum. Menn áttuðu sig ekki á því að þarna væru menn kannski að gera stór axarsköft fyrr en bara rétt í haust, allt í einu kom það upp á yfirborðið, enda var ekki gert ráð fyrir þessari gjaldeyrisáhættu í mati Seðlabankans á Icesave-samningnum sem birt var í júní 2009. Svo segir IFS Greining: Nú er ljóst að þróun íslensku krónunnar er einn af aðaláhættuþáttum Icesave-samningsins.

Ætla þingmenn meiri hlutans algjörlega að horfa fram hjá þessum áhættuþætti? Þetta er dýrasta veðmál sögunnar, ætla ég að leyfa mér að fullyrða. Margir úr stjórnarmeirihlutanum ætla hér, búnir að lýsa því yfir, að samþykkja Icesave-reikninginn algjörlega með bundið fyrir augu, kasta teningnum og vona að þetta fari Íslendingum í hag. Hver tekur svona áhættu, frú forseti? Engin þjóð í sögunni hefur tekið svona áhættu.

Það er ágætt að fara yfir hvað hefur fallið á íslenska ríkið. Ég hef þegar bent á að við erum að borga 35 milljarða kr. á þessu ári umfram skyldu og að vextirnir einir og sér verði um 45 milljarðar kr. Ofan á það bætist ef við tökum gengi punds og evru þann 18. desember sl. að Icesave hefur hækkað um 53,3 milljarða kr. vegna gengislækkunar. Það eru þó nokkrir fjármunir, mundi maður ætla. Það er nákvæmlega það, liggur við, sem ríkisstjórnin var að sækja sér í vasa almennings með því að rústa skattkerfið. Þeir ætluðu að sækja 51 milljarð kr. sem mun væntanlega leiða til þess að hér verður lítill sem enginn hagvöxtur á næstu árum. Þetta er bara gengisþróunin.

Virðulegi forseti. Það er margt fleira í þessu áliti sem ég tel að ég verði að fara yfir. Ég mun væntanlega ná því í minni næstu ræðu. Mig langar til að benda á eina staðreynd sem ég held að menn megi ekki láta fram hjá sér fara.

Í spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði jákvæður árið 2011, fari fljótt í 2,5%. Í finnsku kreppunni á 10. áratugnum var hagvöxtur neikvæður í fjögur ár. Það ætti ekki að vera svo mikið, bara neikvæður í fjögur ár. Það gengur reyndar þvert á það sem Seðlabankinn segir og það er ágætt að líta til þess að í mörgum bankakreppum hefur hagvöxtur orðið jákvæður eftir 1–2 ár. En í áliti IFS segir að það verði þó að líta til þess að hvorki hafi nokkur bankakreppa verið jafnstór og sú íslenska né aukið skuldir ríkissjóðs jafnmikið. Þetta er einfaldlega blákaldur veruleikinn.

Hvernig geta menn búist við því að við komumst fyrr á lappirnar en Finnar og aðrar þjóðir þegar staða Íslands á sér ekki fordæmi í veraldarsögunni? Ég skal fallast á það að ég vona svo innilega að hagvaxtarspá Seðlabankans rætist. Ég skal vera fyrsti maðurinn til að viðurkenna það, en því miður eru þær blikur á lofti að við eigum að búa okkur undir það versta. Ef við samþykkjum Icesave-samningana verður hér langvinnt lífsskerðingarskeið fyrir þjóðina.

Í umræðunni hefur verið bent á að íslenska ríkið er að taka á sig óhemju miklar skuldbindingar, taka lán og að jafnvel sé Icesave bara fjórða stærsta skuldbindingin. Ólíkt því sem kom fram í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar tel ég þessa staðreynd ekki Íslendingum til tekna. Ég bendi á að við fáum aldrei þessa peninga sem við erum að taka að láni í Icesave. Við fáum hins vegar lánin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og við fáum lánin frá Norðurlöndunum og getum væntanlega notað þau til að styrkja gjaldeyrisforðann, en við fáum aldrei lánin varðandi Icesave, þau renna beint til Breta og Hollendinga og jafnvel nokkrir milljarðar, einir þrír, til Hollendinga og Breta vegna einhvers óskilgreinds kostnaðar sem þeir hafa þurft að leggja út fyrir. Algjörlega óútskýrt og órökstutt. En við ákváðum bara svona að gamni, (VigH: Ekki við.) ja, meiri hlutinn, ríkisstjórnin ákvað að það væri þess virði að taka þá. Ég bendi á að nú í sumar ákvað þessi ríkisstjórn að skerða kjör aldraðra og öryrkja um nákvæmlega þessa 3 milljarða.

Að lokum bendi ég á að ég fór ítarlega yfir álit IFS Greiningar, álit sem hefði þurft að koma fram áður en málið yrði tekið úr fjárlaganefnd, en af einhverjum ástæðum var það ekki gert. Það er erfitt að ljúka máli úr ræðustól Alþingis án þess að minnast á að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur sagt að Íslendingar beri í rauninni enga pólitíska ábyrgð á Icesave-samningunum. Hún hefur tekið undir þann málflutning að Icesave-samningarnir voru ekki í samræmi við Brussel-viðmiðin sem þó var farið með í samningaviðræður við Hollendinga og Breta. Ef það er niðurstaðan eru einfaldlega þau lög sem Alþingi samþykkti hér fyrir rúmu ári um að ganga til samninga við Breta og Hollendinga úr gildi fallin.

Frú forseti. 2. minni hluti hefur lagt fram frávísunartillögu þar sem fram hefur komið að mörg álitaefni og gallar eru á málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar við þinglega meðferð málsins og einnig að samningarnir séu ekki í samræmi við umboð Alþingis frá 5. desember 2008 sem kvað á um að mál skyldu leidd til lykta á grundvelli hinna umsömdu viðmiða, Brussel-viðmiðanna. Í þriðja lagi að endurskoðunarákvæði samninganna er þegar virkt vegna skuldastöðu þjóðarinnar. Einnig leggur 2. minni hluti fram breytingartillögur sem styrkja verulega stöðu Íslands og gera það að verkum að lögin sem voru samþykkt í lok ágúst styrki (Forseti hringir.) réttarstöðu og málstað Íslendinga.

Við framsóknarmenn munum (Forseti hringir.) hafna því frumvarpi sem hér hefur komið fram og viljum að því verði vísað á ný til ríkisstjórnarinnar.