138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla mér ekki að svara hér persónulegu skítkasti í minn garð, en ég skal reyna að svara því efnislega sem að mér var beint.

Ég fór yfir álit frá IFS Greiningu sem barst fjárlaganefnd á Þorláksmessukvöld. Þar er bent á að skuldastaða þjóðarinnar sé þannig að þeir vari eindregið við því að Icesave-samningarnir verði samþykktir. Ef svo er að samfylkingarmenn líti svo á að þar sem við eigum einhverjar aðrar skuldir líka sé Icesave bara allt í lagi, þá er þjóðin í verulegum vanda. Ég vil beina þeirri spurningu að hv. þingmanni: Skiptir það ekki máli í því samhengi að við fáum önnur lán? Þau koma til með að virka innan hagkerfisins, eins og frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum, en við sjáum hvorki tangur né tetur af þeim lánum (Forseti hringir.) sem við erum að taka vegna Icesave.