138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni fyrir yfirgripsmikla og ágæta ræðu. Ég skal leitast við að vera fullorðinsleg í orðum mínum en ekki barnaleg svo ég misbjóði ekki einhverjum hv. þingmönnum sem hér sitja.

Nú er það svo að kallað var eftir lögfræðiálitum milli 2. og 3. umr. um þetta mál. Þar á meðal kom fram lögfræðiálit frá breskri lögmannsstofu, Mishcon de Reya, þar sem m.a. er gagnrýnt hversu gjaldfellingarheimildirnar í samningunum séu víðtækar. Það kemur fram í áliti lögmannsstofunnar að þær séu óvenju víðtækar. Á bls. 43 í áliti lögmannsstofunnar kemur fram sú afstaða að það sé eðlilegt að fjárlaganefnd eða fjárlaganefnd er ráðlagt að setja svokallað „disclosures“ á breska samninginn til að tryggja réttindi Íslands.

Nú langar mig að vita, þar sem ég átti sæti í fjárlaganefnd, hvort farið var eftir þessum ráðleggingum bresku lögmannsstofunnar, hvort þetta var eitthvað rætt og hvort þetta var eitthvað skoðað í fjárlaganefnd eða hvort það hafi bara verið blásið á þetta og málið keyrt áfram eins og mér virðist vera.