138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að bent var á það í áliti Mishcon de Reya að gjaldfellingarákvæðin væru einfaldlega það víðtæk að ekki yrði við það unað og þeir vöruðu stjórnvöld einmitt við að samþykkja Icesave með slíkum skilyrðum. Manni finnst það orðið svo sjálfsagt núna að ekki sé farið yfir hluti að það eigi að vera þannig. Auðvitað á það ekki að vera þannig, það var ekki farið efnislega yfir þessi ummæli frekar en annað. Í sjálfu sér má segja að efnisleg umræða um Icesave hafi nánast aldrei farið fram innan fjárlaganefndar. Það er bara hin sorglega staðreynd sem blasir við okkur núna. Ég vildi líka benda á það að Íslendingar hafa skuldbundið sig til þess ef upp kemur ágreiningur í málinu að leita þurfi til Bretlands, að fara fyrir breska dómstóla sem munu þá dæma samkvæmt breskum lögum. Þetta gildir bara um Íslendinga, þetta gildir ekki um Breta. Þeir geta farið (Forseti hringir.) til hvaða lands sem er, fyrir hvaða dómstól sem er og leitað (Forseti hringir.) réttar síns þar. Það sýnir bara hversu ósanngjarnir samningarnir eru.