138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega vekur það áhyggjur hjá manni að svona sé farið með ráðleggingar frá breskri lögmannsstofu sem veitir sérfræðiálit í þessu mikla máli. En ég ætla að beina annarri spurningu til hv. þingmanns. Nú er það svo, miðað við ræðu hæstv. fjármálaráðherra þegar mál þetta var lagt fram, að þá byggist allt af hálfu ríkisstjórnarinnar á því að fyrrverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafi verið búin að binda málið þannig með yfirlýsingum sínum í garð hollenskra stjórnvalda að núverandi ríkisstjórn hafi verið bundin af því. Hv. þingmaður hrakti þau rök ágætlega í ræðu sinni. En mig langar að víkja aðeins að því sem stendur á bls. 44–45 í álitsgerð Mishcon de Reya, þar sem kemur fram að þar sem sagt er í viðaukasamningunum að samningarnir séu í reynd í samræmi við Brussel-viðmiðin þá felist í því að það verði ekki unnt að notast við þessa málsástæðu ef við förum einhvern tímann með málið fyrir dóm. Var þessi staðreynd rædd eitthvað í fjárlaganefnd? Vegna þess að hér er um gríðarlega alvarlegan hlut að ræða af því að það er ekki fjallað neitt efnislega um Brussel-viðmiðin (Forseti hringir.) og ekki komið til móts við þau í samningunum. Hins vegar kemur fram þessi setning sem virðist, miðað við álit Mishcon de Reya, kollvarpa þessari málsástæðu Íslands.