138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er rétt, Mishcon de Reya bendir á þetta og hefur ítrekað bent á það að þrátt fyrir að ummæli ráðamanna þjóðarinnar hafi verið misgáfuleg fyrir um ári síðan, sé ekki hægt að leiða neinn rétt af þeim ummælum, hvað þá þeirri yfirlýsingu sem gerð var við Hollendinga en hefur enga réttarstöðu gagnvart Bretum, jafnvel þó að stjórnarmeirihlutinn hafi ítrekað haldið því fram. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir bendir einmitt á hið augljósa í málinu, málið var núllstillt hér í byrjun desember þegar ákveðið var að ganga til viðræðna við Breta og Hollendinga með Brussel-skilyrðin.

Það vekur líka upp þann ótta hjá manni að nú séu núverandi stjórnvöld í samningaviðræðum við Evrópusambandið, hugsanlega aðild, og þeir skeyti engu því samkomulagi og þeim lögum sem sett voru á Alþingi vegna þess að lögin sem sett voru í byrjun desember fyrir ári síðan hafa verið þverbrotin.