138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég benti á það í ræðu minni að ef niðurstaðan yrði okkur í stjórnarandstöðunni og þjóðinni hagfelld, yrði Icesave-samkomulagið fellt og þá væri það einfaldlega þannig að Bretar og Hollendingar þyrftu að leita réttar síns. Það er rangt að það komi fram ótvírætt að við þurfum að greiða á endanum 600–700 milljarða töpum við málinu. Af hverju skyldi það nú vera? Jú, í fyrsta lagi verðum við aldrei skuldbundin til að borga meira en hinar 20.887 evrur á hvern innstæðureikning. Það er útilokað að íslenska ríkið verði skyldað til að greiða eitthvað sem Bretar og Hollendingar ákváðu einhliða að þeir skyldu greiða innstæðuhöfum langt umfram skyldu, langt umfram það sem allar tilskipanir og allt regluverk (Forseti hringir.) Breta og Evrópu segir til um. Þetta er bara hluti af hræðsluáróðrinum, virðulegi forseti. (MSch: Ekki rétt.)

(Forseti (SVÓ): Forseti biður um þögn í þingsalnum.)