138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi fagna því að hv. þm. Magnús Orri Schram skuli koma hér og treysta sér til að fjalla efnislega um málið. Hann hefur ekki gert það hingað til, heldur bölsótast út í Sjálfstæðisflokkinn sem hann hefur kennt um allar heimsins ófarir líklega undanfarin svona 30, 40 ár. (MSch: Ég flutti ræðu í 2. umr.) En ég skal fagna því að eitthvað efnislegt hafi komið fram og leitast við að svara spurningunni.

Eins og ég hef sagt, og er margítrekað af færustu lögmönnum þjóðarinnar, er útilokað að íslenska ríkið verði skuldbundið til þess að greiða eitthvað sem enginn lögmaður, og ég er ágætlega menntaður í þeim fræðum, gæti fallist á að nokkur aðili ætti að borga. Ef hv. þm. Þráinn Bertelsson ákveður hér að greiða hv. þm. Þuríði Backman eitthvað umfram skyldu og reynir svo að krefja mig um það. Ég mundi hlæja að því. En að sjálfsögðu getur hann krafið mig um það í dómsmáli. Þeir geta krafið okkur um (Forseti hringir.) allt sem … (MSch: Er ekkert að marka álitið frá Mishcon de Reya?) Ég hvet þingmanninn til að lesa betur álit Mishcon de Reya og greiningu IFS og þá mundi hann ekki tala um það að hér stæðu (Forseti hringir.) þingmenn Framsóknarflokksins og væru að bölsótast út í framtíðina. (Forseti hringir.) Hér er byggt á staðreyndum.